Erlent

Ítalskir ráðamenn fengu byssukúlur í pósti

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Berlusconi er eflaust djúpt hugsi eftir að hann fékk byssukúluna í pósti.
Berlusconi er eflaust djúpt hugsi eftir að hann fékk byssukúluna í pósti.
Ítalskir ráðamenn eru slegnir óhug vegna hótunarbréfa sem þeim hafa borist vegna efnahagsráðstafana ríkisstjórnar Marios Montis.

Silvio Berlusconi fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og Mario Monti núverandi forsætisráðherra eru á meðal þeirra sem fengið hafa hótunarbréf en þeim fylgdu einnig byssukúlur. Sendingarnar minna einna helst á atriði úr kvikmynd um mafíósa en í bréfunum er ofbeldi hótað ef efnahagsráðstafanirnar, sem fela í sér 33 milljarða evra niðurskurð ríkisútgjalda, verði ekki endurskoðaðar. Neðri deild ítalska þingsins samþykkti áætlunina á föstudaginn en þingmenn efri deildarinnar greiða atkvæði sitt í þessari viku. 

Bréfin voru sett í póst í Calabria-héraði síðastliðinn fimmtudag en í þeim segir meðal annars „Við eigum aragrúa af byssukúlum og fáum sprengjuefni frá arabískum vinum okkar. Þetta er barátta gegn hinum valdamiklu í þágu hinna fátæku. Niðurskurður í ríkisútgjöldum á eftir að bitna á þeim og ætti því ekki að verða samþykktur. Ef einhvern langar til að leika hetju, þá ætti sá hinn sami að hugsa fyrst um fjölskyldu sína."

Monti, sem tók við forsætisráðherraembættinu þegar Berlusconi sagði af sér í síðasta mánuði, hefur sagt samlöndum sínum að búa sig undir kreppu-tímabil þar sem landið þurfi að draga úr ríkisskuldum sínum sem nema 1,9 milljörðum evra, eða 304 milljörðum íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×