Erlent

„Hinn mikli arftaki“ tekur við í N-Kóreu

Hér er ein af fáum myndum sem til eru af Kim Jong Un. Hann er lengst til vinstri á myndinn og faðir hans lengst til hægri.
Hér er ein af fáum myndum sem til eru af Kim Jong Un. Hann er lengst til vinstri á myndinn og faðir hans lengst til hægri.
Tæplega þrítugur huldumaður verður næsti leiðtogi Norður-Kóreu. Hann, Kim Jong Un mun taka við af föður sínum Kim Jong Il sem lést um helgina 69 ára að aldri.

Tilkynnt var um lát leiðtogans í ríkissjónvarpi landsins í morgun og gat þulurinn ekki haldið aftur af tárum sínum þegar hann las tilkynninguna. Samkvæmt henni lést Kim Jong-Il vegna gríðarlegs vinnuálags sem leiddi til hjartaslags um helgina. Jarðarför leiðtogans verður á miðvikudag milli jóla og nýárs. Mikil sorg ríkir nú í þessu einangraða landi að því er ríkismiðillinn greinir frá og þegar hafa birst myndir af grátandi fólki í höfuðborginni Pyongyang.

Kim Jong Il var eini leiðtogi Kommúnistaríkis sem fékk valdastöðuna í arf en hann tók við stjórnartaumunum þegar faðir hans Kim Il Sung lést árið 1994. Sá ber titilinn forseti til eilífðarnóns og því var Kim Jong Il ávallt kallaður leiðtogi landsins en ekki forseti.

Nú mætir til sögunnar þriðji ættliðurinn því sonur Kim Jongs IL, Kim Jong UN mun taka við af föður sínum. Hann hefur nú fengið titilinn hinn mikli arftaki í Norður kóreskum miðlum.

Lítið var vitað um Kim Jong Il þegar hann tók við á sínum tíma og enn minna er vitað um son hans. Það er ekki einusinni á hreinu hvað hann er gamall en hann mun vera um þrítugt og menntaður í Sviss.

Mikil spenna hefur eðlilega myndast á Kóreuskaga í kjölfar fréttanna af láti leiðtogans enda hefur stríðinu á milli Norður og Suður Kóreu aldrei formlega lokið. Forseti Suður Kóreu sagði í morgun að hann hafi rætt við Barack Obama Bandaríkjaforseta og að þeir hafi orðið ásáttir um að fylgjast náið með framvindunni næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×