Viðskipti innlent

Talið að markaðsmisnotkunin hafi byrjað 2004

Magnús Halldórsson og Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Grunur um kerfisbundna markaðsmisnotkun yfir margra ára tímabil, frá 2004 og fram árið 2008, er meðal ástæðna fyrir því að embætti sérstaks saksóknara krafðist gæsluvarðhalds yfir fjórum fyrrverandi starfsmönnum Glitnis.

Samkvæmt heimildum fréttastofu snúa atriðin helst að margvíslegum viðskiptum sem fólu í sér fjármögnun á eigin hlutafé bankans, þar sem peningar fara í raun úr einum vasa bankans í annan, til þess að halda uppi gengi hlutabréfa bankans.

Fórnarlömbin í þeim glæpum eru ekki síst fjárfestar, lífeyrissjóðir og fleiri, sem treysta því að verðmyndun skýrist af raunverulegum markaðshvötum, en sparifé almennings var bundið í þessum eignum með ýmsum hætti.

Eigin viðskipti Glitnis, þ.e. sú deild sem átti viðskipti með eigin hlutafé bankans á fyrrnefndu árabili, eru ekki síst undir smásjánni, samkvæmt heimildum fréttastofu. Vegna þess hve málið nær langt aftur snýr rannsóknin ekki síst af stjórnendum bankans sem voru við stjórnvölinn, áður en Lárus Welding tók við stjórnartaumunum árið 2007 af Bjarna Ármannssyni.

Sakfellingar fyrir markaðsmisnotkun eiga sér fá fordæmi í íslenskri dómsögu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×