Enski boltinn

Chelsea ætlar að leyfa Anelka og Alex að fara í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicolas Anelka.
Nicolas Anelka. Mynd/Nordic Photos/Getty
Franski sóknarmaðurinn Nicolas Anelka og brasilíski varnarmaðurinn Alex hafa báðir beðið um að vera seldir frá Chelsea þegar félagsskiptaglugginn opnar í janúar og forráðamenn Chelsea hafa ákveðið að verða við ósk leikmannanna og setja þá báða á sölulista.

„Við höfum aldrei efast um fagmennsku þeirra en höfum ákveðið að setja þá á sér æfingaáætlun vegna þess hvernig þeir hafa spilað að undanförnu," sagði Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea en hvorki Nicolas Anelka eða Alex voru í hópnum í gær þegar liðið vann 3-0 sigur á Newcastle.

„Við höfum samþykkt ósk þeirra um að vera settir á sölulista en það þýðir samt ekkert endilega að þeir muni fara frá félaginu. Við vonumst til að þeir muni fara að æfa á fullu með liðinu verði ekkert að því að þeir fari frá okkur," sagði Villas-Boas.

Nicolas Anelka kom til Chelsea frá Bolton árið 2008 en hann hefur orðið undir í baráttunni við Fernando Torres og Daniel Sturridge. Alex hefur eins ekki fengið mikið að spila eftir að David Luiz var keyptur til Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×