Handbolti

Hanna Guðrún: Heiður að vera varaskeifa fyrir gömlu konuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hanna Guðrún Stefánsdóttir.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir. Mynd/Anton
Hanna Guðrún Stefánsdóttir er orðin varafyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handbolta eftir að Hrafnhildur Skúladóttir var hækkuð í tign þar sem að fyrirliðinn Rakel Dögg Bragadóttir datt út vegna meiðsla. Stelpurnar okkar mæta Tékklandi í vináttulandsleik í Vodafone-höllinni á Hlíðarenda klukkan 19.30 í kvöld.

Rakel Dögg Bragadóttir missir af HM í Brasilíu eftir að hún sleit krossband rétt fyrir mót. Hanna segir að liðið muni vinna sigur út úr því áfalli.

„Það kemur náttúrulega bara maður í manns stað en það er rosalegur missir að missa Rakel. Hún er mikilvægur póstur í liðinu, fyrirliði og mjög mikilvæg í vörn. Við þjöppum okkur bara ennþá meira saman og reynum að vinna sem best út úr þessu," sagði Hanna en Ísland er á leiðinni á HM kvenna í fyrsta sinn.

„Þetta er búið að vera draumur margra í mörg ár. Við ætlum að njóta okkar, spila okkar besta bolta og gera okkar besta. Það er rosalegur sigur fyrir okkur og góður árangur að komast fyrst inn á EM og svo strax inn á næsta stórmót," segir Hanna en framundan er langt ferðlag til Brasilíu og leikir á fjarlægum stað.

„Við erum bara einbeita okkur að handboltanum og að okkar leik. Við erum búnar að æfa vel og svo er alltaf gott að hafa smá stress í maganum. Það verður samt enginn leikur léttur í þessum riðli," sagði Hanna.

„Þessir leikir við Tékka verða mjög góð æfing fyrir okkur en það væri líka rosalega gott að fá tvo sigra. Þær eru mjög góðar en við erum að æfa marga hluti og ætlum að prufa nýja hluti. Við munum reyna að spila okkur saman fyrir mótið í þessum leikjum," sagði Hanna en breytir það einhverju fyrir hana að vera orðin varafyrirliði.

„Þetta breytir mér ekkert sem leikmanni en það er bara heiður að fá að vera varafyrirliði og varaskeifa fyrir gömlu konuna," sagði Hanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×