Erlent

Mikið óveður kostaði tvo lífið í suðurhluta Skandinavíu

Mikið óveður sem gekk yfir suðurhluta Skandinavíu í gærdag og gærkvöldi kostaði að minnsta kosti tvo menn lífið  og olli töluverðum truflunum á samgöngum.

Tveir Norðmenn fórust og tveggja er saknað eftir óveðrið. Mennirnir tveir voru að vinna með hópi kvikmyndafólks við Egersund þegar stór flóðbylgja skall á hópinn og soguðust mennirnir tveir á haf út með henni en hópurinn gat ekkert gert til að koma þeim til bjargar.

Miklar truflanir urðu á samgöngum í suðurhluta Skandinavíu og lágu lestarferðir víða niðri sem og flug- og ferjuferðir. Samkvæmt dönskum fjölmiðlum voru lestarferðir meir og minna komnar í eðlilegt horf í morgun.

Þá strandaði Ærö-ferjan, sem gengur milli Fjóns og Ærö, síðdegis í gærdag skammt frá Svendborg. Um borð eru tæplega 150 manns og eru þeir enn fastir í ferjunni á strandstað. Ætlunin er að reyna að ná ferjunni á flot fyrir hádegið en farþegarnir verða ekki fluttir úr henni á meðan. Í frétt á TV2 er haft eftir einum farþeganna nú í morgunsárið að þeir hafi það gott enda nýbúnir að fá kaffi.

Í Kaupmannahöfn hafa menn nú áhyggjur af því að yfirborð sjávar við borgina muni hækka um hálfan annan metra í dag og valda flóðum í þeim hverfum sem lægst liggja í borginni, það er Kristjánshöfn, Nýhöfn og Íslandsbryggju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×