Handbolti

Tólf sigrar í röð hjá strákunum hans Alfreðs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Íslendingaliðin Kiel og Hannover-Burgdorf unnu bæði flotta sigra í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en Alfreð Gíslason er þar með búinn að stýra Kiel til sigurs í fyrstu tólf deildarleikjum tímabilsins.

Aron Pálmarsson skoraði eitt mark fyrir Kiel í léttum 35-26 sigri á TBV Lemgo en Kiel var 16-10 yfir í hálfleik. Svíinn Kim Andersson var markahæstur hjá Kiel með 7 mörk en Daniel Kubes og Filip Jicha skoruðu báðir fimm mörk.  

Hannover-Burgdorf vann öruggan 30-24 sigur á HSG Wetzlar í slag tveggja Íslendingaliða en Hannover-Burgdorf var 16-10 yfir í hálfleik. Hannover-Burgdorf komst upp í 10.sæti með þessum sigri en Wetzlar er í 14. sæti.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði fimm mörk fyrir Hannover-Burgdorf og Hannes Jón Jónsson var með eitt mark. Vignir Svavarsson komst ekki á blað í markaskorun en var rekinn tvisvar sinnum útaf. Kári Kristjánsson skoraði ekki fyrir HSG Wetzlar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×