Innlent

Fjölskylda Daniels: Afar þakklát björgunarsveitarmönnum

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Fjölskylda sænska ferðamannsins sem fannst látinn á Sólheimajökli í gær eftir mikla leit segist ekki hafa getað krafist meira af björgunarsveitarmönnum. Þegar hefur verið boðað til rýnifunda þar sem björgunarsveitarmenn fara yfir leitina, það sem gekk vel og betur hefði mátt fara.

Daniel Markus Höij fannst látinn ofan í jökulsprungu rétt fyrir hádegi í gær eftir ríflega tveggja sólarhringa leit. Daniel hringdi í Neyðarlínuna á miðvikudagskvöld og bað um hjálp en gat ekki gefið upp staðsetningu sína.

Byrjað var að leita að honum á Fimmvörðuhálsi en rannsóknarvinna fór strax af stað um nóttina þar sem ekki þótti víst að hann væri þar að finna.

Leitin var með þeim umfangsmeiri sem farið hafa fram hér á landi en 500 björgunarsveitarmenn tóku þátt í henni. Þegar hefur verið boðað til rýnifunda þar sem björgunarsveitir fara yfir leitina og læra af henni.

Bróðir og foreldrar Daniels, sem komu til landsins, senda þeim sem komu að leitinni þakkarorð.

„Við erum afar þakklát öllum þeim sem tóku þátt í leitinni að okkar ástkæra syni og bróður, Daníel. Ekkert var til sparað hvað varðar búnað og fjölda leitarfólks. Þeir sem stóðu að leitinni sýndu mikla fórnfýsi í starfi sínu. Afar fagmannlega var staðið að aðgerðinni og við hefðum ekki getað beðið um meira," segir í þakkarorðunum til björgunarsveitarmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×