Innlent

Verðhækkanir á kjötvörum ekki eðlilegar

Verð á kjötvörum hefur hækkað langt umfram það sem eðlilegt má teljast að mati forstjóra Haga. Hann segir fákeppni og innflutningshöft á kjötmarkaði skaða almenning í landinu.

Verð á kjötvörum frá afurðarstöðum hefur hækkað gríðarlega á síðastliðnum mánuðum.

Á tímabilinu júní 2010 til september 2011 hækkaði svínakjöt um fjörtíu og fjögur prósen. Nautakjöt hækkaði um 25 til 28 prósent, lambakjöt um 20 prósent og kjúklingar um 20 prósent.

Er eðlileg skýring á þessum verðhækkunum að þínu mati?

„Nei, við höfum talið þetta óeðlilegar hækkanir. Við erum að horfa á að meðaltali 28 prósenta verðhækkun á kjöti á meðan verðbólgan er í kringum fimm til sex prósent og við teljum það ekki eðlilegt," segir Finnur Árnason, forstjóri Haga.

Hann segir að fákeppni og innflutningshöft skaði neytendur.

„Sú haftastefna sem er við lýði hún gerir það að verkum að verð hækkar langt umfram það sem eðlilegt er og þarna er verið að lauma kostnaði inn á heimilinn í gegnum vísitöluhækkun og þessar miklu hækkanir á kjöti eru að kosta heimilin stórkostlega peninga," segir hann.

Þannig hafi verðtryggð lán heimilanna hækkað um rúma sjö milljarðar eftir neysluvísitalan hækkaði í kjölfar hækkandi kjötverðs. Finnur segir nauðsynleg að losa um innflutningshöft til lækka verð til neytenda.

„Það eru auðvitað sauðfjárbændur fyrst og fremst sem byggja afkomu sína á kjöti viða um land. Ég tel við eigum að standa vörð um þá framleiðslu. Hins vegar er iðnaðarframleitt kjöt, eins og svínakjöt og kjúklingur hefur lítið að gera með hefðbundinn landbúnað og ég myndi vilja sjá miklu opnari reglugerð fyrir þann innflutning þannig að heimilin njóti þess," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×