Innlent

Segir Sjálfstæðisflokkinn hafa komið í veg fyrir ríkisábyrgð

Jón Óttar Ragnarsson, stofnandi Stöðvar 2, fullyrðir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með pólitískum vélabrögðum sölsað stöðina undir sig í lok árs 1989 þegar þeir misstu fyrirtækið. Flokkurinn hafi komið í veg fyrir að ríkisábyrgð fengist á lán til Stöðvarinnar.

Jón Óttar talar um þá sem lokasprettinn, síðustu mánuðina sem liðu áður en stofnendur og Stöðvar 2 misstu yfirráð yfir fyrirtækinu. Þá var farið að harðna á dalnum fjárhagslega og eigendurnir leituðu til ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar um ríkisábyrgð á láni til fyrirtækisins, sem stjórnin féllst á að veita. En yfirlýsing um ríkisábyrgð nægði ekki Verzlunarbankanum, sem þá var viðskiptabanki fyrirtækisins og laut að sögn Jóns Óttars stjórn Sjálfstæðisflokksins.

„Þá gerist það sem ég ætlaði nú ekkert að segja frá nema í ævisögunni minni. Þegar maður horfir til baka er þetta náttúrulega bara pólitískt plott innan Sjálfstæðisflokksins. Það sem þeir gera er að segja; það er ekki nóg. Það verður að semja bráðabirgðalög," segir Jón Óttar.

Ekkert varð hins vegar úr setningu bráðabirgðalaga, en fjölmiðlar greindu á þeim tíma frá að stjórnarþingmenn hefðu meðal annars lagst gegn því.

„Þó maður sæi það ekki þarna inni í miðjum blindbyl, þá er þetta alveg augljóst þegar maður horfir til baka. Það leikur enginn vafi á því að það voru háværar raddir innan Sjálfstæðisflokksins um að taka stöðina yfir."

Fréttastofa bauð Þorsteini Pálssyni, þáverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, að tjá sig um ummæli Jóns Óttars, en hann afþakkaði.

Þriðji hluti Ljósvakavíkinga, heimildarmyndar um sögu Stöðvar 2, verður sýndur strax að loknum fréttum, en þar er fjallað nánar um þessa örlagaríku mánuði í sögu stöðvarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×