Innlent

Líst illa á hugmynd borgarstjóra

Breki Logason skrifar
Kollegum Jóns líst illa á hugmynd hans.
Kollegum Jóns líst illa á hugmynd hans.
Forsvarsmenn fimm af sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu líst frekar illa á hugmyndir borgarstjórans í Reykjavík um sameiningu sveitarfélaganna. Bæjarstjóri Álftaness er sá eini sem er áhugasamur um sameiningu. Aðrir segja hugmyndina illa ígrundaða eða úrelta tálsýn.

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík ítrekaði við urmæðu um fjárlagafrumvarp borgarinnar í gær að mikilvægt væri að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Sagði hann ekki þurfa neitt stúdentspróf í stærðfræði til að átta sig á þeim fjárhagslega ávinningi sem samening sveitarfélaganna sjö hefði í för með sér.

Fréttastofa kannaði í dag hug hinna sveitarfélaganna til þessarar hugmyndar borgarstjóra.

Guðmundur Rúnar Árnason bæjarstjóri í Hafnarfirði sagðist frekar tortrygginn á þá hugmynd að til verði eitt sveitarfélag á öllu svæðinu, að minnsta kosti ekki í einu skrefi.

Pálmi Másson á Álftanesi var frekar áhugasamur í garð hugmyndarinnar en það sama verður ekki sagt um Gunnar Einarsson í Garðabæ sem sagði þetta úrelda hugsun hjá borgarstjóra. Það að einhver lausn felist í að sameina sveitarfélög sé tálsýn.

Sömu sögu er að segja um Harald Sverrisson í Mosfellsbæ sem minnti á íbúakosningu fyrir nokkrum árum þar sem þessi hugmynd var kolfelld.

Ásgerður Halldórsdóttir á Seltjarnarnesi tók í sama streng en sagði marga þætti sem þyrfti að skoða. Henni myndi ekki hugnast hugmyndin en það væri fyrst og fremst í höndum íbúanna að taka slíka ákvörðun.

Hér að neðan má sjá svör fulltrúanna við spurningunni um hvernig þeim lítist á hugmyndir borgarstjórans.

Gunnar Einarsson, Garðabær

„Mín skoðun er að þetta sé úreld hugsun hjá borgarstjóra, það að einhver lausn felist í að sameina sveitarfélög er tálsýn. Hin nýja hugsun á að felast í því að hugsa frekar svæðisbundið þar sem einstaka einingar innan svæðis efla með sér samstarf til hagræðingar  ef svo ber undir en haldi um leið sínum séreinkennum og bæjarbrag.  Það gerist af sjálfum sér með auknum verkefnum frá ríki til sveitarfélaga að þau taki upp samstarf sín í milli.

Það má líka nálgast málið út frá því að lýðræðinu sé betur borgið  án sameiningar, fjarlægðin milli íbúa og kjörinna fulltrúa og yfirstjórnar er minni í smærri einingum.  Það má einnig nálgast málið út frá samkeppnisjónarmiði og mikilvægi þess að  íbúar landsins eigi möguleika á að  velja sér búsetu þar sem áherslur eru misjafnar s.s. út frá skattapólitík.

Þá er rétt að benda á að Garðabær með sína 11 þúsund íbúa, hefur fengið viðurkenningu undanfarin ár sem draumasveitarfélag í rekstri og komið mjög vel út í könnunum um gæði þjónustu. Út frá þeirri staðreynd þarf Garðabær ekki að sameinast neinum en ég myndi skilja það vel ef einhver vill sameinast okkur með tilliti til rekstur og gæða. Það má líka benda á að engar haldbærar rannsóknir styðja einhverja ákveðna stærð af sveitarfélagi með tilliti til skilvirkni og rekstrar.

Sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið rædd sérstaklega í bæjarstjórn nú en eins og öllum er kunnugt um eru viðræður milli Garðabæjar og Álftaness í gangi um hugsanlega sameiningu , en þær viðræður eru tilkomnar vegna stöðu Álftaness og að frumkvæði þeirra."

Guðmundur Rúnar Árnason, Hafnarfjörður

„Almennt er ég þeirrar skoðunar að sveitarfélög á Íslandi séu of mörg og mörg þeirra séu of smá. Til þess að geta staðið undir kröftugri nærþjónustu þarf ákveðna stærð að lágmarki. Aftur á móti eru hagkvæmni stærðarinnar takmörk sett. Þegar sveitarfélag verður of stórt, fara menn að leita leiða til færa vald út í „hverfin" og þróa e.k. hverfisstjórnir.

Ég held að það sé skynsamlegt að fækka sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu með sameiningum og hef séð fyrir mér að ekki sé óeðlilegt að í náinni framtíð verði á svæðinu 2-3 burðug sveitarfélög, sem starfi náið saman á fjölmörgum sviðum. Ég hef enga sérstaka sannfæringu fyrir því að það sé skynsamlegt að til verði eitt sveitarfélag á öllu svæðinu, a.m.k. ekki í einu skrefi, hvað sem síðar verður. Er reyndar frekar tortrygginn á þá hugmynd, með hliðsjón af því sem ég sagði áður um of stór sveitarfélög - og mt.t. sveitarstjórnarstigsins á Íslandi almennt.

Undanfarna mánuði hefur verið unnin mikil vinna á vettvangi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem miðar að því að kanna kosti og möguleika á auknu samstarfi á fjölmörgum sviðum. Þessar hugmyndir eru núna til umfjöllunar í ráðum og koma síðan til umfjöllunar í bæjarstjórn. Það er því verið að ræða aukna samvinnu í öllum sveitarfélögunum á svæðinu. Aukin samvinna sveitarfélaga á grundvelli þessarar vinnu gæti verið undanfari einhverra sameininga.“

Haraldur Sverrisson, Mosfellsbær

„Ég sá ekki þetta viðtal við borgarstjóra en gef mér að hann hafi verið að ræða sameiningu sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu í eitt sveitarfélag og svara í samræmi við það.

Ég tel það ekki vel ígrundaða eða skynsama hugmynd að sameina öll sveitarfélögin á höfðuborgarsvæðinu.  Við það yrði til sveitarfélag sem þar sem byggju um 2/3 þjóðarinnar.  Við það yrði algert ósamræmi í stærðarhlutföllum sveitarfélaga á landinu (eitt sveitarfélag sem bæri algeran ægishjálm yfir önnur) og er að mínu mati nóg ósamræmi fyrir  með eitt sveitarfélag sem telur þriðjung þjóðarinnar.  Ég tel að með því að sameina hér í eitt sveitarfélag væri allt eins hægt að leggja niður sveitarstjórnarstigið og færa þá stjórnsýslu til ráðuneytanna.

Ég tel líka að þetta sé ekki í samræmi við þann tíðaranda sem nú ríkir að auka íbúalýðræði og aðkomu íbúa að ákvörðunum.  Með sameiningu sem þessari og eftir atvikum niðurlagningu á sveitarstjórnarstiginu væri verið að stíga mörg skref afturábak í átt að auknu íbúalýðræði og þátttöku íbúa.

Frekar á að mínu mati að auka samvinnu sveitarfélaganna í hinum ýmsu málum þar sem samlegðaráhrif liggja í gegnum svæðissamtök sveitarfélaga.  Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa einmitt að undanförnu verið að vinna slíku fyrirkomulagi til framtíðar og er ég viss um að það mun skila sér í betri rekstir og bættri þjónustu á ýmsum sviðum.

Ég tel að ef komist verði að þeirri niðurstöðu að það sé til góðs að fækka sveitarfélögum hér á höfuðborgarsvæðinu sé skynsamlegast að gera það með því að búa til þrjú sveitarfélög hér á svæðinu sem séu sem líkust að stærð.  Það væri best gert með því að sameina Mosfellsbæ og þann hlut Reykjavíkur sem er  austan Elliðáa (Árbæ, Grafarvog, Grafarholt og Kjalarnes), síðan Reykjavík vestan Elliðaá og Setltjarnarnes  (sem væri þá höfðuðborgin) og að lokum suðursveitarfélögin, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og Álftanes.  Með þessu væru orðin til þrjú tiltölulega jafnstór sveitarfélög hér á höfðuborgarsvæðinu.  Þetta er að því gefnu að sameining yfirleitt sé talin hagkvæm út frá öllum hliðum sem ég er efins  um að verði niðurstaðan.

Hvað varðar Mosfellsbæ, þá hefur í gegnum tíðina verið lítill áhugi á sameiningu.  Skemmst er að minnast íbúakosningar á sínum tíma um sameiningu við Reykjavík þess efnis var kolfelld.  Þetta hefur ekki verið formlega rætt í bæjarstjórn en ég mundi halda að flestir bæjarfulltrúar séu andsnúnir slíkum hugmyndum, án þess að ég sé að tala fyrir þá m.a. á þeim rökum sem ég hef hér nefnt.  Þess má líka geta að hagkvæmissjónarmið hafa líka borið á góma í þessu sambandi og má í því sambandi nefna að í dýrasta málaflokki sveitarfélaga , fræðslumálum,  er kostnaður lægri í Mosfellsbæ en Reykjavík.  Kostnaður á nemenda í bæði leik- og grunnskólum bæjarins er mun lægri en í Reykjavík og er það ekki vegna þess að hér í bæ sé boðið upp á verri þjónustu nema síður sé.  Þannig að það geta verið ýmsar hliðar á þessum málum."

Pálmi Másson, Álftanes

„Sveitarfélagið Álftanes hefur verið áhugasamt um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og standa yfir viðræður milli Sveitarfélagsins Álftaness og Garðabæjar eins og vel er þekkt. Á tímum hagræðinga hlýtur þetta að vera einn af þeim þáttum sem sveitarstjórnarmenn þurfa að gaumgæfa, því með sameiningu sveitarfélaga er í mörgum tilvikum hægt að lækka kostnað á íbúa samfara því að bæta þjónustu."

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri á Seltjarnarnesi var stödd erlendis en sagði í samtali við fréttastofu að þetta hefði ekki verið rætt nýlega í bæjarstjórn. Þarna væru margir þættir sem þyrfti að skoða en það væri fyrst og fremst í höndum íbúa að taka slíka ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×