Handbolti

Steinar Ege ekki búinn að ákveða það hvort hann verði með á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinar Ege í leik á móti Íslandi.
Steinar Ege í leik á móti Íslandi. Mynd/DIENER
Steinar Ege, landsliðsmarkvörður Norðmanna undanfarin sextán ár og annar af stjörnumarkvörðum danska stórliðsins AG Kaupmannahöfn, er ekki enn búinn að gefa það út hvort hann ætli að vera með á EM í Serbíu í byrjun næsta árs.

„Hann mun ráða þessu sjálfur og verður með okkur ef hann tilkynnir mér áður en við byrjum lokaundirbúninginn í janúar. Ég held að hann verði með og hjálpi okkur á EM," sagði Robert Hedin, landsliðsþjálfari Norðmanna.

Steinar Ege er orðinn 39 ára gamall (fæddur 10. apríl 1972) en á frábærum ferli sínum hefur hann spilað meðal annars með þýsku liðunum VfL Gummersbach og THW Kiel (meistari 2000 og 2002). Ege lék sinn fyrsta landsleik árið 1995 og hefur alls spilað 262 landsleiki eða fleiri en nokkur annar Norðmaður.

Ege varð tvöfaldur meistari með AG kaupmannahöfn á síðustu leiktíð en hann berst um byrjunarliðssætið við danska landsliðsmarkvörðinn Kasper Hvidt.

Norðmenn eru með Íslandi, Króatíu og Slóveníu í riðli á EM í Serbíu og fyrsti leikurinn er á móti Slóveníu 16. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×