Viðskipti innlent

Krónan hefur hjálpað Íslendingum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Paul Krugman er að undirbúa sig undir fyrirlestur á Íslandi.
Paul Krugman er að undirbúa sig undir fyrirlestur á Íslandi. mynd/ afp.
Íslandi hefur vegnað betur en mörgum öðrum ríkjum í efnahagskreppunni, segir Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði. Hann segir að ástæðurnar séu fyrst og fremst tvær; að ríkissjóður tók ekki á sig skuldir bankanna og að Íslendingar eru með sjálfstæðan gjaldmiðil.

Í bloggfærslu sem Krugman skrifaði á vefsvæði New York Times á föstudaginn tekur hann atvinnuleysi sem dæmi. Hann bendir á að það hafi ekki hækkað eins mikið á Íslandi og í Eistlandi, Lettlandi og Írlandi.

Hann bendir á að skyndileg stöðnun hafi orðið í ríkjunum sem verst urðu úti í kreppunni. Til að fást við hana þurfi að auka útflutning og/eða minnka innflutning verulega. Þetta verði einungis gert með því að draga úr framleiðslukostnaði í hlutfalli við önnur ríki eða að gjaldmiðillinn lækki. Krugman bendir á að gengi krónunnar hafi snarlækkað. Með þessu hafi atvinnuleysið ekki aukist eins og í hinum ríkjunum.

Krugman viðurkennir að hægt væri að nota aðra kvarða en atvinnuleysið og Ísland kæmi þá kannski verr út í samanburði. Hins vegar sé staðreyndin sú að þótt Íslendingar hafi þjáðst hafi þjóðinni ekki vegnað eins illa og mörgum öðrum ríkjum.

Krugman vekur máls á því í pistil sínum að hann sé um þessar mundir að undirbúa sig undir ráðstefnu á Íslandi á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún hefst á fimmtudaginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×