Handbolti

Guðmundur: Vil skoða nokkra leikmenn nánar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Guðmundur Guðmundsson valdi í morgun nítján manna æfingahóp sem kemur saman nú um mánaðamótin. Liðið æfir saman í tæpa viku til að undirbúa sig fyrir EM í Serbíu í janúar en Guðmundur ætlar einnig að nota tækifærið og skoða nokkra leikmenn nánar.

Guðmundur segir að það hafi verið slæmt að missa þá Ólaf Stefánsson, sem er meiddur, og þá Guðjón Val Sigurðsson og Sverre Jakobsson en báðir gáfu ekki kost á sér af fjölskylduástæðum.

„Ólafur ætlaði að spila um helgina með liði sínu, AG í Kaupmannahöfn, gegn Montpellier í Meistaradeildinni en varð fyrir bakslagi og ríkir því ákveðin óvissa með hans meiðsli," sagði Guðmundur.

„Ég valdi því nokkuð stóran hóp að þessu sinni og helgast það af því að ég við skoða leikmenn sem hafa verið nálægt liðinu og banka á dyrnar."

Sem dæmir nefni hann að hann valdi fjóra línumenn í hópinn að þessu sinni. „Einar Ingi Hrafnsson er búinn að vera að standa sig vel í Danmörku og ég vildi gefa honum tækifæri, sem og gefa Kára Kristjáni Kristjánssyni tækifæri til að sanna sig."

„Svo valdi ég Aron Rafn Eðvarðssonm, tveggja metra markvörð úr Haukum. Við teljum hann mikið efni ef hann vinnur vel úr sínum málum. En mér finnst þó boltinn liggja mikið hjá honum sjálfum. Sveinbjörn Pétursson hjá Akureyri er líka efnilegur en er ekki valinn að þessu sinni, þar sem við vildum skoða Aron í þetta skiptið," sagði Guðmundur.

Rúnar Kárason, leikmaður þýska úrvalsdeildarfélagsins Bergische, kemur aftur inn í liðið og er það vegna meiðsla Ólafs. „Við viljum skoða hann og koma honum betur inn í okkar mál. Auðvitað vonum við að Óli komi til baka en Rúnar hefur átt ágætis leiki með sínu félagsliði og viljum við halda honum inni sem valkosti ef á þarf að halda."

Þá fagnar Guðmundur því að Sturla Ásgeirsson, hornamaður úr Val, komi aftur inn í liðið. „Hann datt á sínum tíma út vegna mieðsla en Sturla hefur ávallt reynst landsliðinu vel og því viljum við gefa honum tækifæri. Hann er í góðu formi þessa dagana."

„En það eru alltaf takmörk fyrir því hvað það er hægt að velja stóran hóp og eru nokkrir leikmenn sem ekki eru valdir að þessu sinni sem við erum samt að fylgjast náið með. Meðal þeirra má nefna HK-ingana Ólaf Bjarka Ragnarsson og Bjarka Má Elísson. Svo erum við alltaf að leita að öflugum varnarmönnum sem geta spilað í miðri vörninni."

Landsliðið kemur saman á mánudaginn næstkomandi og æfir saman til föstudags. Liðið mætir einmitt úrvalsliði N1-deildar karla í pressuleik í Laugardalshöllinni á föstudagskvöld eftir rúma viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×