Innlent

Stóð nakinn úti í glugga fyrir framan leikvöll - sagðist vera klóra sér

Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni á sjötugsaldri sem var dæmdur fyrir að særa blygðunarkennd nágranna sinna, þegar hann stóð hálfnakinn út í glugga og strauk á sér getnarliminn.

Lögreglan var kölluð að heimili mannsins í maí á síðasta ári eftir að nágrannar kvörtuðu undan hegðun mannsins. Gluggi mannsins snéri meðal annars að leikvelli barna.

Lögreglan kom á heimili mannsins sem hélt því fram að þeim kæmi ekkert við hvað hann gerði á sínu eigin heimili.

Maðurinn neitaði sök. Hann játaði vissulega að hafa staðið nær nakinn út í glugga en hann hélt því fram að hann hefði klórað sér í kynfærum eða gripið um þau í umrætt sinn en ekki strokið getnarliminn.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að margar tilkynningar hafi borist um viðlíka háttsemi mannsins allt frá árinu 2005. íbúar í nágrenninu voru langþreyttir á þessu og óttuðust um börnin í hverfinu samkvæmt skýrslu lögreglunnar.

Þá kemur fram í málinu að samkvæmt upplýsingakerfi lögreglu hafi 11 tilkynningar borist um „sagða afbrigðilega hegðun“ mannsins á árunum 2005 til 2010.

Hann var því dæmdur fyrir að særa blygðunarkennd nágranna sinna og úrskurðaður í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×