Innlent

Svartur vetur framundan

Lillý Valgerður Pétursdóttir. skrifar
Verkefnaskortur og samdráttur varð til þess að Skipti, móðurfélag Símans og Skjásins, og Íslenskir aðalverktakar tilkynntu um fjöldauppsagnir í dag. Forseti Alþýðusambands Íslands hefur áhyggjur af atvinnuástandinu á komandi vetri.

Á meðal þeirra fyrirtækja sem ákveðið hafa að grípa til fjöldauppsagna í þessum mánuði eru Skipti, móðurfélag Símans og Skjásins, sem sagði upp fjörtíu og fimm manns í dag. Forstjórinn segir uppsagnirnar lið í hagræðingaraðgerðum fyrirtækisins. Rekstarumhverfi fyrirtækisins sé erfitt líkt og annarra fyrirtækja hér á landi.

„Það er bara einfaldlega þannig að það er engin aukning í eftirspurn, það er minnkun. Til dæmis eins og á fjarskiptamarkaði. Fjarskiptamarkaður hefur farið minnkandi á síðustu árum á sama tíma og samkeppni hefur aukist og þess vegna hefur arðsemi félaganna minnkað. Það er bara staðreynd," segir Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta.

Þá sögðu tilkynntu Íslenskir aðalverktakar í dag að fyrirtækið hafi sagt upp fjörtíu starfsmönnum í september. Ástæðan er sögð vera verkefnaskortur og fyrirsjáanlegur samdráttur í framkvæmdum í vetur.

Á annað hundrað manns hafa misst vinnuna í fjöldauppsögnum í mánuðinum. Fyrr í mánuðinum sagði Arion banki upp fimmtíu og sjö starfsmönnum.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, hefur áhyggjur af atvinnulífinu á komandi vetri.

„Hann leggst frekar illa í okkur. Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi minnkað hér um svona hábjargræðistímann, þá eru horfurnar inn í veturinn frekar dökkar. Við erum að sjá það í þessum hópuppsögnum að fyrirtækin eru svona að stilla sig af og gera ráð fyrir talsvert minni vinnuaflsnotkun. Auðvitað mun það birtast okkur sem aukið atvinnuleysi ef ekkert annað ferð í gang," segir Gylfi.

Gylfi segir fjárfestingar á Íslandi í sögulegri lægð. Við gerð nýrra kjarasamninga hafi verið gert samkomulag við stjórnvöld um að stuðla að því að auka fjárfestingar. Gagnrýnivert sé að mánuðir hafi liðið án þess að fjárfestingaráætlun eða efnahagsáætlun hafi birst.

„Það eru klárlega fyrirheit stjórnvalda. Sem allavega ennþá hafa ekki séð dagsins ljós og er mikilvægt hins vegar að stjórnvöld sýni meiri festu í því að byggja hér upp og koma hér hlutum í gang. Það er enginn annar sem ber þá ábyrgð heldur en ríkisstjórnin að koma þessum hlutum áfram," segir Gylfi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×