Innlent

Ekki hægt að útiloka að skjálftar af mannavöldum valdi stærri skjálftum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Smáskjálftavirkni hélt áfram að mælast við Hellisheiðarvirkjun í dag. Undanfarið hafa hundruð skjálfta orðið vegna vinnu á svæðinu. Jarðskjálftafræðingur segir ekki hægt að útiloka að skjáftarnir geti valdið stærri skjálftum.

Jarðskjálftana má rekja til þess að affallsvatni frá Hellisheiðarvirkjun er dælt aftur niður í jörðina.

„Það hafa mælst hundruðir skjálfta undir virkjuninni eftir að þeir fóru að dæla niður í holurnar. Þeir eru nú flestir mjög smáir. Það eru kannski um fjörtíu sem ná styrk tveimur og yfir og einn náði styrk 3,4 sirka og sá fannst í Mosfellsbæ, í Hveragerði og jafnvel austur á Hvolsvöll," segir Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Það er Orkuveitan sem virkjar jarðvarma á svæðinu. Hún hefur öll tilskilin leyfi fyrir dælingunni. Hvorki Umhverfisráðuneytið né Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem hefur eftirlit með virkjuninni, hafa gert athugasemdir við dælinguna þrátt fyrir jarðskjálftana. Steinunn segir þekkt að dæling á vatni sem þessi valdi smáskjálftum.

Aðspurð um hvort að svona smáskjálftar geti valdið stærri skjálftum eða jafnvel komið einhverju stærra á stað segir hún aldrei hægt að útiloka að svo sé. „Hins vegar má segja að þeir valdi ekki stærri skjálftum nema það sé fyrir uppsöfnuð spenna. Þannig að það væri þá svæði sem mætti búast við stórum skjálfta einhvern tímann á næstu árum hvort eð er," segir Steinunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×