Viðskipti innlent

Gengissigið virðist hafa stöðvast

Sig á gengi krónunnar sem staðið hefur yfir frá áramótum virðist nú hafa stöðvast, en krónan hefur styrkst lítið eitt síðustu sex vikurnar. Yfirmaður greiningardeildar býst við að gengið haldist nú stöðugt.

Gengi krónunnar veiktist nánast samfellt frá áramótum og þar til um miðjan júlí, en það féll um sjö og hálft prósent gagnvart evru og um sex og hálft prósent gagnvart þeim myntum sem Íslendingar eiga helst utanríkisviðskipti í á þeim tíma.

Þá virðist þessi þróun hafa stöðvast, en síðan í júlí hefur gengið tekið að styrkjast lítið en greinilega, en styrkingin gagnvart þessum helstu viðskiptamyntum þjóðarinnar nemur rúmlega einu og hálfu prósenti samkvæmt skráningu Seðlabankans. Sig krónunnar virðist því tvímælalaust hafa stöðvast á síðustu sex til sjö vikum eða svo.

Ingólfur Bender, yfirmaður greiningar Íslandsbanka, segir erfitt að segja nákvæmlega til um orsakir þessa en nefnir að hugsanlega hafi gjaldeyristekjur skilað sér til landsins að auknu leyti vegna ferðaþjónustunnar, sem valdi því að krónan styrkist. Þá skipti aðstæður á alþjóðlegum mörkuðum máli.

Ingólfur segir að hagstæður vöruskiptajöfnuður hjálpi krónunni sömuleiðis, auk þess sem hærri stýrivextir gætu haft áhrif til styrkingar, þó það sé að miklu minna leyti en fyrir hrun vegna gjaldeyrishaftanna. Hann segir erfitt að segja fyrir um það hvort frekari styrkingar sé að vænta, en sveiflur í krónunni hafa verið minni en almennt á gjaldeyrismörkuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×