Viðskipti innlent

Fékk 10 milljónir gefins frá Búnaðarbankanum

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Viðskiptavinur Búnaðarbankans fékk tæpar tíu milljónir króna ofgreiddar úr fjárfestingarsjóði fyrir mistök. Viðskiptavinurinn var ekki krafinn um endurgreiðslu fjárhæðarinnar, en tapið var fyrst gjaldfært í bókum Arion banka á þessu ári.

Hluti af uppgjöri banka er að bókfæra tap vegna rekstraráhættu, en þar er átt við tap vegna mistaka starfsmanna, villna í tölvukerfum eða svika svo fátt eitt sé nefnt.

Í nýju árshlutauppgjöri Arion banka er tap upp á rúmar 32 milljónir bókfært vegna þessa fyrstu sex mánuði ársins, en langstærsti einstaki gjaldaliðurinn hljóðar upp á 9,6 milljónir.

Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er það vegna atviks sem átti sér stað í Búnaðarbankanum árið 2002, en þá fékk viðskiptavinur bankans upphæðina ofgreidda út úr fjárfestingarsjóði fyrir mistök.

Málið komst upp þegar Kaupþing tók sjóði Búnaðarbankans yfir árið 2004, en þá töldu sérfræðingar bankans að ekki væri ráðlegt að sækja málið, og því má segja að viðskiptavinurinn hafi fengið ofgreiðslu upp á tæpar tíu milljónir að gjöf frá Búnaðarbankanum.

Tapið var fyrst bókfært í nýju árshlutauppgjöri Arion banka, en það var eitt þeirra mála sem endanlega var gert upp þegar slitið var á milli Arion banka og Kaupþings þann 30. júní síðastliðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×