Viðskipti innlent

Útlán ÍLS aukast um rúma fjóra milljarða milli ára

Heildarfjárhæð almennra lána Íbúðalánasjóðs (ÍLS)  fyrstu 7 mánuði ársins er samtals um 13,5 milljarðar króna en var um 9,4 milljarðar króna á sama tímabili í fyrra. Hafa lánin því aukist um rúma fjóra milljarða króna milli ára.

Þetta kemur fram á vefsíðu sjóðsins. Þar segir að heildarútlán Íbúðalánasjóðs  námu rúmum 2,2 milljörðum króna í júlí en þar af voru rúmir 2,1 milljarðar króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í júlí í fyrra tæpum 1,8 milljörðum króna.  Meðalútlán almennra lána voru um 9,9 milljónir króna í júlí en um 10 milljónir í júní síðastliðnum.

Heildarvelta íbúðabréfa nam um 43,6 milljörðum króna í júlí samanborið við um 55,7 milljarða í júní s.l.  Greiðslur Íbúðalánasjóðs vegna húsbréfa og húsnæðisbréfa námu rúmum 380 milljónum króna í júlí. Uppgreiðslur í júlí námu um 900 milljónum króna.

Fram kemur á vefsíðunni að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fór fram á það við íslensk stjórnvöld að breytingar yrðu gerðar á Íbúðalánasjóði til að laga hann að ríkisaðstoðarreglum EES samningsins. Nú er unnið að breytingum á skipulagi og starfsemi sjóðsins til þess að samræma starfsemi hans reglum ESA. Nýja skipulagið þarf að ganga í gildi um næstu áramót.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×