Viðskipti innlent

Gullverð hækkar látlaust

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Gullverð hefur hækkað nánast viðstöðulaust undanfarnar vikur, og það eru orðnar nær daglegar fregnir að það hafi náð methæðum. Gullforði Seðlabankans hækkaði um 1,3 milljarða í verði á örfáum vikum.

Gullverð sló enn eitt metið í dag þegar únsan af gulli seldist fyrir meira en 1780 dollara, andvirði um 206 þúsund króna, en síðan þá hefur verðið aftur lækkað aðeins.

Þessi góðmálmur hefur risið svo mikið í verði vegna þess að fjárfestar líta á gull sem örugga eign sem heldur verðgildi sínu ágætlega og er auðseljanlegt.  Þegar ólga grípur um sig á verðbréfamörkuðum kjósa margir fjárfestar að kaupa gull, og þrýsta þannig verðinu upp.

Þegar markaðir opnuðu í gær í fyrsta sinn eftir að lánshæfismat Bandaríkjanna var lækkað skaust verðið á gulli til dæmis samstundis upp á við. Yfir daginn hækkaði gullverðið um 3,4 prósent og hafði ekki tekið stærra stökk í tvö ár.

Seðlabanki Íslands er vafalaust stærsti eigandi gulls á Íslandi, en bankinn á tæplega 64 þúsund únsur sem geymdar eru í breska seðlabankanum. Þann 18. júlí seldist gullúnsan á 1600 dollara. Það merkir að þegar gullverðið náði hámarki sínu í dag hafði verðmæti gullforða bankans vaxið um meira en 1,3 milljarða króna síðan þá, en það er ávöxtun upp á rúm ellefu prósent á aðeins þremur vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×