Innlent

Vilja að unnið verði allan sólarhringinn til að laga brúnna

Samtök Ferðaþjónustunnar hafa lýst yfir neyðarástandi í greininni vegna lokunar hringvegarins. Erlendir ferðamenn hafa þegar afbóka ferðir sínar til landsins vegna ástandsins.

Vegagerðin telur að það geti tekið allt að tvær til þrjár vikur að gera við brúna yfir Múlakvísl eftir atburði gærdagsins. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að stjórnendur fyrirtækja trúi ekki að stjórnvöldum sé alvara.

Árni Gunnarsson, formaður Samtaka Ferðaþjónustunnar, segir í tilkynningu að það sé ótækt að hafa þjóðveginn lokaðan svo lengi yfir háönnina í ferðaþjónustu. Hundruð ferðamanna fara hringveginn dag hvern og þúsundir á næstu dögum.

„Það er mikilvægt að halda Fjallabaksleið nyrðri vel færri, eins og stefnt er að, en það eru þúsundir bifreiða á ferðinni á þessu svæði og stærsti hluti þeirra eiga ekkert erindi inn á Fjallabak og má nefna mikinn fjölda smábíla og venjulegar rútur sem munu stórskemmast,  auk þess sem Fjallabaksleið mun aldrei geta annað þessari miklu umferð," segir í tilkynningunni.

Þar segir að búast megi við því að afbókanir hópa fari að berast strax eftir helgi ef ekki liggur fyrir önnur áætlun en sú að hringvegurinn verði lokaður í tvær til þrjár vikur. „Það er gríðarlegur kostnaður við að endurskipuleggja ferðir og greiða skaðabætur vegna ferða sem ekki er hægt að fara. Það er skýlaus krafa ferðaþjónustunnar að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að opna leið yfir Múlakvísl sem allra fyrst.  Hver dagur er mjög dýr þar sem ferðir um hringveginn er ein helsta söluvara ferðaþjónustunnar."

Því er beint til Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, sem jafnframt er ráðherra samgöngumála, að hann beiti sér af öllu afli í málinu og unnið verði allan sólarhringinn við að opna þessa leið. „Vegna verkefnaskorts í vegagerð mun mikið til af mannskap, tækjum og tólum svo möguleikarnir til að bregðast hratt við eru fyrir hendi,“ segir ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×