Skoðun

Ruglið heldur áfram

Friðrik Indriðason skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að dæma blaðamann fyrir ummæli sem hann hefur eftir viðmælenda sínum innan gæsalappa. Viðmælandinn hefur þar að auki sagt að rétt sé eftir sér haft.

Þessi dómur, ef hann stenst í Hæstarétti, er eins konar dauðadómur yfir mál- og tjáningarfrelsi á landinu og verulega íþyngjandi fyrir þá blaðamenn sem skrifa um viðkvæm málefni. Spurningin sem vaknar er hvort dómstólinn sé með þessu að senda einhver skilaboð út í þjóðfélagið eða hvort þetta sé geðþóttaákvörðun eins dómara.

Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands hefur réttilega sagt að dómurinn sé fráleitur. „Hann sér ekki fyrir sér hvernig blaðamenn geti sinnt hlutverki sínu ef þeir mega ekki haft rétt eftir viðmælendum sínum," svo vitnað sé í viðtal við Hjálmar á ruv.

Málið snýst um skrif Jóns Bjarka Magnússonar, blaðamanns á DV, þar sem hann hafði orðrétt eftir konu að barnsfaðir hennar, danskur að þjóðerni, hefði beitt börn þeirra ofbeldi. Þau tvö munu deila um forráðaréttinn yfir börnum sínum og hefur hinn danski faðir krafist þess að fá þau í sínar hendur.

Ég held að dómarar landsins verði að átta sig strax á því út í hvaða forræði þeir eru komnir með þessum undarlega dómi. Hægt er að nefna nokkur hugsanleg dæmi um að almenningi þessa lands stafi beinlíns hætta af dóminum. Einfalt dæmi væri að blaðamaður hefði eftir áhyggjufullri móður að henni litist ekkert á að „perri" væri fluttir í blokkina hennar. Perrinn ætti auðvelt með að fá 1,2 milljónir greiddar úr vasa viðkomandi blaðamannsins og skiptir þá engu máli hvort hann væri áður margdæmdur í samræmi við viðurnefnið.

Blaðamennska er ekki velborguð vinna fyrir þá sem eru „á gólfinu" á ritstjórnum landsins. Skilaboðin sem Héraðsdómur Reykjavíkur er að senda þessu fólki með niðurstöðu sinni í málinu gegn Jóni Bjarka eru einföld. Ekki ræða við fólk og birta það sem það segir ef það getur kostað þig gjaldþrot. Og það skiptir dóminn engu máli hversu mikilvægar þær upplýsingar eru fyrir almenning. Lagatæknin segir honum annað og sannara.

Höfundur er blaðamaður á vísir.is




Skoðun

Sjá meira


×