Viðskipti innlent

Forlagið áfrýjar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

Jóhann Páll Valdimarsson, útgefandi og útgáfustjóri Forlagsins.
Jóhann Páll Valdimarsson, útgefandi og útgáfustjóri Forlagsins.
Forlagið hefur ákveðið að áfrýja ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um 25 milljón kr. stjórnvaldssekt til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Í yfirlýsingu segir að Forlagið harmi að Samkeppniseftirlitið hafi tekið ákvörðun um að leggja 25 milljóna króna stjórnvaldssekt á félagið vegna meintra brota á sátt sem gerð var vegna samruna JPV útgáfu og Vegamóta árið 2008. Forlagið er ósammála úrskurðinum og mun skjóta honum til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og síðan til dómstóla ef þörf krefur.

„Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins kemur ekkert fram um að Forlagið hafi í reynd raskað samkeppni á bókamarkaði. Öll gögn benda þvert á móti til þess að samkeppni í íslenskri bókaútgáfu blómstri sem aldrei fyrr, þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði á liðnum árum. Þá benda allir hlutlægir mælikvarðar á markaðsstyrk til þess að markaðshlutdeild Forlagsins sé nú í kringum 15-20%. Forlagið telur það óþekkt að fyrirtæki með jafnlitla hlutdeild af heildarmarkaði sé beitt svo harkalegum viðurlögum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Félagið hefur ítrekað óskað eftir því að ákvæði sáttarinnar verði tekin til endurskoðunar og reyndar óskað eftir því að sáttin verði tekin upp í heild sinni vegna ágalla á henni og breyttra markaðsaðstæðna. Við þeim beiðnum hefur Samkeppniseftirlitið ekki brugðist.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×