Skoðun

Alþjóðlegi MND dagurinn 21. júní: Lifa af eða að lifa?

Guðjón Sigurðsson skrifar
Á þessu tvennu er mikill munur. Þrátt fyrir að Ísland hafi undirgengist samþykktir Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra virðumst við vera föst í þessum flokki „Lifa af" þegar kemur að bótaþegum og láglaunaþegum mörgum sem byggja þetta land. Okkur hættir til að líta á það sem eðlilegt að einhver hluti þjóðarinnar eigi fyrir mat, hafi húsaskjól og komist mögulega í vinnu í strætó. Þetta getur flokkast undir að lifa af. Hvað með lífið sjálft? Viljum við Íslendingar að stór hluti þjóðarinnar eigi ekkert líf? Ég held ekki.

Við erum flest betur gerð en það. Að börnin komist ekki í frístundastarf, að við komumst ekki í stutt ferðalög, getum ekki farið í bíó eða stundað einhverja menningarviðburði flokkast undir að neita fólki um að lifa. Sumir munu segja: „Þetta pakk sóar öllu sínu í brennivín og dóp hvort eð er." Það er alveg satt en þá verðum við að vita að fíklum verður ekki bjargað með bótum einum saman. Þeir finnast í öllum stéttum svo sá vandi er okkar allra að leysa í sameiningu. Rétt eins og að tryggja öllum möguleikann til að lifa. Lifa af er fyrir neðan okkar virðingu sem þjóðar sem viðmið í okkar frábæra landi.

Við erum öll Íslendingar og þurfum bara mismikla aðstoð til að lifa lífinu lifandi.

Við trúum á líf fyrir dauðann, hitt kemur seinna. Þökkum Íslendingum allan stuðning við okkar litla félag.

Þakkar og baráttukveðjur á alþjóðlegum MND degi.

Guðjón Sigurðsson formaður




Skoðun

Sjá meira


×