Sport

Bolt sigraði með yfirburðum í Osló

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bolt fagnar í rigningunni í Osló.
Bolt fagnar í rigningunni í Osló. Mynd/AFP
Usain Bolt kom langfyrstur í mark í 200 metra hlaupi á frjálsíþróttamóti í Osló í gærkvöldi. Mótið var það fimmta í Demantamótaröðinni í frjálum. Þetta var í fyrsta skipti í rúmt ár sem Bolt hleypur 200 metra hlaup en hann hefur glímt við meiðsli.

Bekkurinn var þéttskipaður á Bislett leikvanginum í Osló í gærkvöldi. Allir 14.800 miðarnir sem í boði voru seldust upp nokkrum dögum fyrir mótið. Nærvera Bolt er talin hafa vegið þungt.

Í grenjandi rigningu stakk hann keppinauta sína af og kom í mark á 19.86 sekúndum rúmri hálfri sekúndu á undan heimamanninum Jaysuma Ndure.

„Þetta var fínt hlaup. Ég er ánægður að hafa komist klakklaust frá því. Usain Bolt er mættur aftur. Ég hef ekki náð fullum styrk en það styttist í það,“ sagði Bolt.

Fyrir utan sigur Bolt vakti mesta athygli sigur Marokkókonunnar Halima Hachlaf í 800 metra hlaupi kvenna. Hachlaf hljóp á tímanum 1:58.27 og kom í mark á undan heimsmeistaranum Caster Semenya.

Eistinn Gerd Kanter, ólympíumeistari í kringlukasti sem Vésteinn Hafsteinsson þjálfar, sigraði í kringlukastinu með kasti upp á 65.14 metra.

Þá vakti sigur Paul Kipsiele Koech í 3000 metra hlaupi athygli en Koech gengdi hlutverki héra í hlaupinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×