Skoðun

Tiltrú á krónuna: Sönnunargagn A

Hafsteinn Hauksson skrifar
Um 465 milljarðar króna eru í höndunum á fólki sem enginn þekkir. Þessi skuggahópur hefur gengið undir ýmsum nöfnum frá hruni; jöklabréfaeigendur, óþolinmóða fjármagnið og aflandskrónueigendur.

Það sem við vitum um þetta fólk er eftirfarandi: Þetta er fjölbreyttur hópur erlendra aðila; bankar, fagfjárfestar, vogunarsjóðir og einstaklingar. Öllum fannst þeim góð hugmynd að fjárfesta í íslenska hávaxtahagkerfinu í aðdraganda hrunsins. Öll eru þau föst í viðjum gjaldeyrishafta með fé sitt eftir að bankakerfið fór á hliðina. Öll hafa þau valdið okkur áhyggjum síðan.

Ástæða þess er sú að við óttumst að þau vilji losa sig við krónurnar sem þau eiga, jafnvel með miklum afföllum. Það merkir að þau gætu verið tilbúin að selja krónurnar sínar mjög ódýrt til þess eins að komast með fé sitt úr landi. Og það getur aðeins þýtt eitt; gengishrun.

Hér kemur vandinn. Við höfum ekki hugmynd um það nákvæmlega hversu ódýrt þetta fólk vill selja krónueignirnar sínar eða hvort það vill selja þær yfir höfuð. Eina leiðin til að komast að því er á markaði, og markaður með krónur var afnuminn með gjaldeyrishöftunum. Því brá seðlabankinn á það ráð að halda uppboð á gjaldeyri, þar sem þetta fólk gat boðið aflandskrónurnar sínar í evrur.

Þannig fáum við einhverja hugmynd um hversu lágt gengi aflandskrónueigendurnir eru tilbúnir að sætta sig við til að flýja land með fé sitt, og losum um þá allra óþolinmóðustu í leiðinni. Þetta er einföld leið - svo einföld að menn hafa talað fyrir henni í meira en heilt ár, og því sætir miklum undrum að hún hafi ekki verið farin fyrir löngu. Ætli góðir hlutir gerist ekki hægt?

Fyrsta útboð þessarar tegundar var auglýst fyrir tveimur vikum. Þá leyfði seðlabankinn krónueigendunum að bjóða allt að fimmtán milljarða samtals í evrur á því skiptagengi sem þeim hugnaðist sjálfum. Þannig fékkst í fyrsta sinn frá hruni mat á því nákvæmlega hversu óþolinmótt óþolinmóða fjármagnið er. Í vikunni var niðurstaðan svo kynnt. Alls buðu krónueigendurnir meira en 61 milljarð króna í evrur, en seðlabankinn ákvað að taka tilboðum upp á rúma 13 milljarða. Þessum 13 milljörðum króna var skipt í evrur á miklu veikara gengi en skráð er hjá seðlabankanum; 215 kr. fyrir evruna eða meira, á meðan skráð gengi krónunnar er um 165 kr. fyrir evruna (munum að hærra verð fyrir evruna merkir að krónan er veikari).

Við getum sopið hveljur yfir því að þessi litli hópur fjárfesta sé tilbúinn að selja krónuna svo ódýrt. Eða þá að við getum litið á þá staðreynd að tæplega 4/5 af þeim fjárfestum sem tóku þátt í útboðinu voru ekki tilbúnir til þess, sem er auðvitað miklu stærri frétt. Hugsanlega vildi stór hluti þeirra ekki einu sinni selja sig mikið ódýrara en sem nemur skráðu gengi krónunnar. Flestir krónueigendurnir úr þessum hópi tóku svo ekki einu sinni þátt í útboðinu - sýndu engan minnsta áhuga á að losa sig við íslenskar eignir eins og við óttumst svo mjög. Útboðið er þegar upp er staðið sönnunargagn A um tiltrú fjárfesta á krónuna.

Athugum einnig að krónurnar sem þessir aðilar eiga eru ekki sambærilegar við þær sem venjulegir íslendingar eiga á bankareikningum sínum. Við getum notað peningana okkar til að kaupa það sem okkur langar í, eða stofna fyrirtæki, eða lána vini okkar sem ætlar að stofna fyrirtæki og hirt vextina. Þessir aðilar geta flestir ekkert gert við krónurnar sínar annað en að láta þá hanga inni á reikningum sem bera lága vexti. Því hlýtur gengið sem kemur út úr útboðum af þessu tagi alltaf að verða lægra en sem nemur genginu á frjálsri krónu, og samt buðu fjárfestar ekki lægra gengi en raun ber vitni.

Að öllu ofantöldu sögðu virðast allar líkur á að tiltrú á krónuna sé miklu meiri en flestir hafa þorað að vona undanfarin þrjú ár - jafnvel þótt hún sé föst í höftum, sem virka eins og hálfgert viðvörunarspjald um háls hagkerfisins. Útboð seðlabankans gefur þó enga endanlega niðurstöðu um hið sanna gengi krónunnar, enda takmarkaður hópur krónueigenda sem gat tekið þátt. Þetta var fyrsta útboðið, og nokkuð lág upphæð í þokkabót, svo hugsanlega hafa einhverjir ákveðið að bíða og sjá. Aðrir hafa boðið taktískt, og hugsanlega hafa einhverjir einfaldlega verið í lausafjárþurrð og vantað reiðufé, án þess að það hafi neitt með tiltrú á krónuna að gera. Í ofanálag gefur þetta útboð engar upplýsingar um þá aðila sem vilja koma inn á móti þeim sem vilja fara út. Það er að segja þá fjárfesta sem hafa áhuga á að kaupa krónurnar af þeim sem vilja selja þær; við vitum um framboðið en ekki eftirspurnina.

En ef fyrsta útboðið gefur einhverja vísbendingu um framhaldið, þá er alls ekki óeðlilegt að álykta að krónan sé síst allt of hátt skráð, og að ef höftum væri aflétt þá myndi frjáls króna ná jafnvægisgengi án þess að falla verulega. Þetta mega ráðamenn hafa í huga þegar þeir ákveða að lögfesta gjaldeyrishöftin til næstu fjögurra ára. Slík lagasetning gæti allt eins valdið margföldum skaða á við það að afnema höftin einfaldlega sem fyrst.




Skoðun

Sjá meira


×