Viðskipti innlent

UBS og Merrill Lynch ráðgjafar við söluna á Iceland

Slitastjórn Landsbankans hefur ráðið bankana UBS og Bank of America Merrill Lynch sem ráðgjafa við söluna á Iceland Foods verslunarkeðjunni.

Þetta kemur fram á vefsíðu slitastjórnarinnar. Þar segir að fyrsta verk UBS og Merrill Lynch verði að leggja mat á hver þróunin gæti orðið í sölunni á Iceland og hvaða möguleika slitastjórnin eigi í stöðunni.

Þá segir að UBS og Merrill Lynch eigi að leggja fyrir slitastjórnina hvort þessir bankar mæli með sölu á Iceland eða ekki við núverandi aðstæður.

Reuters greinir frá þessu og segir að Landsbankinn eigi 67% hlut í Iceland og að meira en milljarður punda hafi verið nefnt sem söluverð keðjunnar.

Reuters vitnar svo í frétt Financial Times frá því fyrr í vor um að sumar af stærstu verslunarkeðjum Bretlands hafi áhuga á því að kaupa Iceland. Ástæðan sé að Iceland er sennilega síðasta tækifærið til að eignast stóran hóp verslana í Bretlandi á einu bretti.

Financial Times segir að slitastjórnin sjálf verðleggi Iceland á 1,8 til 2 milljarða punda eða allt að um 370 milljarða kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×