Viðskipti innlent

SAF kvartar undan meðhöndlun lána í bankakerfinu

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) átti í morgun fund með bankastjórnendum Íslandsbanka, Arion banka og Landsbanka. Tilefni fundarins var kvartanir stjórnenda fyrirtækja í ferðaþjónustu um meðhöndlun lána en ennfremur var rætt um aðgang fyrirtækjanna að lánsfé og fyrirkomulag alferðatrygginga ferðaskrifstofanna.

Þetta kemur fram í nýjasta fréttabréfi SAF. Þar segir að fulltrúar bankanna ræddu stöðuna og þau ferli sem farið er eftir t.d. beinu brautina.  Þrátt fyrir miklar kvartanir fyrirtækja yfir þjónustunni vildu fulltrúarnir ekki taka undir að staðan væri svo slæm, það tæki vissulega langan tíma að ganga frá lánum þar sem um stórar upphæðir er að ræða og sögðust lána lífvænlegum fyrirtækjum til góðra verka þótt ekki sé búið að ganga frá endurskipulagningu lánanna.

Voru fyrirtæki hvött til að koma til bankanna með góð verkefni.  Sagt var frá markmiðum um að öll smærri og meðalstór fyrirtæki yrðu búin að fá tilboð fyrir 1. júní n.k..  Fram kom að beðið er eftir niðurstöðum í dómsmáli í hæstarétti um lögmæti erlendra lána, sem búist er við á næstunni og mun skipta miklu máli. 

Ekki vildu fulltrúar bankanna gangast við því sem kvartað var yfir og sögðu ferðaþjónustuna þá atvinnugrein sem hefði farið fyrst á skrið eftir hrun.  Ekki gátu viðstaddir fulltrúar bankanna svarað miklu um alferðatryggingar og ljóst að það þarf að fá fund með þeim sem hafa með þau mál að gera innan bankanna.  Rætt var um umboðsmann viðskiptavina í bönkunum og eru félagsmenn hvattir til þess að leita til þeirra ef þeir eru ósáttir við afgreiðslu bankanna, að því er segir í fréttabréfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×