Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar stóð í stað milli mánaða

Raungengi íslensku krónunnar stóð í stað á milli mars og apríl síðastliðins á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Stendur vísitala raungengisins nú í 73,9 stigum sem er tæplega fjórðungi lægra en hún hefur að jafnaði verið undanfarna þrjá áratugi.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í apríl lækkaði nafngengi krónunnar miðað við vísitölu meðalgengis um 0,3% frá fyrri mánuði. Á sama tíma hækkaði verðlag hér á landi um 0,8% samkvæmt vísitölu neysluverðs sem hefur vegið upp á móti áhrifum nafngengis á raungengi á þessu tímabili.

Af þessu er ljóst að verðlagshækkunin hér á landi hefur verið heldur meiri hér á landi í apríl en í okkar helstu viðskiptalöndum sem kemur ekki á óvart enda hefur það oftast verið raunin í gegnum tíðina. Þetta má sjá í tölum sem Seðlabanki Íslands birti í fyrradag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×