Viðskipti innlent

Arion banki býður hagstæð íbúðalán

Viðskiptavinum Arion banka bjóðast ný og hagstæð íbúðalán frá og með mánudeginum 9. maí. Lánin bera fasta vexti út lánstímann sem eru betri en þau vaxtakjör sem nú bjóðast á íslenskum bankamarkaði.

Í tilkynningu segir að um sé að ræða verðtryggð íbúðalán. Annars vegar lán sem nema allt að 60% veðhlutfalli fasteignar, bera 4,30% fasta vexti og eru til 25 eða 40 ára. Hins vegar viðbótarlán sem nema frá 60% til 80% veðhlutfalli fasteignar, bera 5,40% fasta vexti og eru til allt að 25 ára. Til að eiga kost á láni þurfa viðskiptavinir að standast greiðslumat bankans.

„Það er hlutverk fjármálastofnana að bjóða viðskiptavinum sínum fjölbreytta fjármálaþjónustu. Lán til íbúðakaupa eru liður í því. Síðan Arion banki var stofnaður hefur höfuðáhersla í starfi bankans verið á úrlausn skuldamála, en nú sér fyrir enda þeirrar vinnu,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka í tilkynningunni.

„Við teljum mikilvægt að bjóða viðskiptavinum okkar upp á þennan nýja fjármögnunarkost og viljum gera það á ábyrgan hátt. Þannig kalla þessi nýju lán á að minnsta kosti 20% eiginfjárframlag lántakans og að hann standist ítarlegt greiðslumat bankans. Vaxtakjör lánanna upp að 60% veðsetningarhlutfalli eru vissulega hagstæð en lán umfram 60% veðsetningarhlutfall bera hærri vexti og geta að hámarki verið til 25 ára.

Með þessu fyrirkomulagi er skuldsetningu lántaka sett skynsamleg mörk, en vextir lánanna eru hagstæðir og með þessu er Arion banki að svara kalli viðskiptavina um fjölbreyttari fjármögnunarkosti.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×