Viðskipti innlent

Atvinnuleiðin strandar á ríkisstjórninni

Nú hafa aðilar vinnumarkaðarins verið að hugsa sinn gang varðandi atvinnuleiðina, þriggja ára kjarasamning sem byggir á auknum fjárfestingum til þess að koma Íslandi út úr kreppunni. Þegar horfið var frá verki sl. föstudagskvöld var ljóst að hvorki var unnt að ná samstöðu um atvinnuleiðina né samkomulagi til skamms tíma. Atvinnuleiðin strandar á ríkisstjórninni segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. í leiðara nýs fréttabréfs SA sem kemur út í dag.

„Skammtímasamningur strandar á því að SA vilja að í honum felist að aðilar vinni áfram saman að atvinnuleiðinni meðan Alþýðusambandið vill að með honum sé ákveðið að hefja nýjar deilur og setja framhaldið á vinnumarkaðnum í enn meiri óvissu. Merkilegt er að hvorki í viðræðum um atvinnuleiðina né um skammtímasamkomulag strandaði svo teljandi væri á launatölum," segir Vilhjálmur.

Fjallað er um málið á vefsíðu SA. Vilhjálmur segir að ríkisstjórninni verði að auðnast að ná sátt um málefni sjávarútvegsins.  Engin ríkisstjórn hafi verið jafn nálægt víðtækri sátt um sjávarútvegsmál og því væri bagalegt ef það mistækist.

„Samtök atvinnulífsins og LÍÚ/SF hafa lagt fram ákveðnar tillögur sem allar eru umsemjanlegar ef það mætti verða til þess að hreyfa málið.  Ennþá hefur ríkisstjórnin ekki viljað stíga fram og taka í útrétta sáttahönd samtakanna.  En sáttahönd SA og LÍÚ/SF er áfram útrétt og vonandi sér ríkisstjórnin að það er hvorki í þágu sjávarútvegsins né þjóðarinnar að hafa málin í núverandi stöðu,“ segir Vilhjálmur.

„Hætt er við því að upplausn verði á vinnumarkaðnum ef mál skýrast ekki strax eftir páska.  Launafólk bíður óþreyjufullt  eftir niðurstöðu og sama gildir um atvinnulífið.  Fyrirtækin í landinu tapa stórlega á óvissu og kyrrstöðu  í fjárfestingum. Klukkan gengur ekki síður á atvinnulífið en starfsfólkið. Allir tapa. Besta leiðin er atvinnuleiðin. Á henni græða allir. Með stórauknum fjárfestingum skapast ný störf í bráð og lengd, atvinnuleysi minnkar og tekjur fólks og fyrirtækja aukast.   Samtök atvinnulífsins vilja berjast til þrautar fyrir atvinnuleiðinni.“   






Fleiri fréttir

Sjá meira


×