Viðskipti innlent

Spá tæplega prósentuhækkun á vísitölu neysluverðs

Greiningadeild Íslandsbankans spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,8% í apríl.

Gangi spá eftir mun 12 mánaða verðbólga verða 2,9%, en svo mikil hefur verðbólgan ekki mælst síðan í október í fyrra. Verði spáin að veruleika er það einnig í fyrsta skipti á þessu ári sem verðbólga mælist yfir 2,5% markmiði Seðlabanka Íslands. Hagstofan birtir aprílmælingu VNV kl.9:00 fimmtudaginn 28. apríl.

Eldsneytisverð á drjúgan þátt í hækkuninni nú, líkt og undanfarna mánuði. Íslandsbanki gerir ráð fyrir að verðhækkun á bensíni og díselolíu leiði til 0,2% hækkunar VNV að þessu sinni.

Þá virðast útsölulok hafa dregist venju fremur á langinn og má eiga von á nokkurri hækkun á innfluttum vörum á borð við fatnað og húsbúnað.

Skilar það hækkun á VNV sem nemur nálega fjórðungi úr prósentu í apríl að mati okkar. Einnig eru vísbendingar um nokkra hækkun matvöru og telur bankinn að VNV hækki um 0,15% vegna þess í mánuðinum. Þá áætlar bankinn að húsnæðisliður vísitölunnar hafi áhrif til 0,1% hækkunar hennar.

Auk leiðréttingar á viðhaldslið þessa þáttar, sem Hagstofan tilkynnti um fyrr í mánuðinum, telur bankinn vísbendingar um að markaðsverð á íbúðarhúsnæði kunni að mælast nokkru hærra hjá Hagstofunni í apríl en raunin var í fyrri mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×