Viðskipti innlent

Auður tapaði 76 milljónum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, ásamt Höllu Tómasdóttur stjórnarformanni.
Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, ásamt Höllu Tómasdóttur stjórnarformanni.
Það var 76 milljóna króna tap á rekstri Auðar Capital á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem birtur hefur verið. Niðurstaðan er öllu betri en árið 2009 en þá hafði verið 88 milljóna króna tap á rekstri félagsins. Eigið fé Auðar Capital er rétt rúmur milljarður króna.

Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, segist á vefsíðu félagsins vera sátt við rekstrarárangurinn. „Þetta er annað heila starfsár okkar og frá upphafi gerðum við stjórnendur og hluthafar félagsins ráð fyrir því að uppbygging tæki bæði tíma og kallaði á fjárfestingu. Við höfum lagt mikla áherslu á að byggja upp tekjustofna til framtíðar og það hefur tekist vel. Viðskiptavinum hefur fjölgað jafnt og þétt og eignir í stýringu vaxið að sama skapi,“ segir Kristín. Hún segir að félagið njóti trausts ánægðra viðskiptavina sem skipti sköpum. „Ennfremur fjárfesti AUÐUR I í áhugaverðum fyrirtækjum á árinu sem við teljum að muni skila okkur tekjum til lengri tíma litið," segir Kristín.

Á aðalfundi Auðar sem haldinn var á miðvikudag var stjórn félagsins kjörin.  Stjórnina skipa: Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson,  David Adams og Þóranna Jónsdóttir sem kemur ný inn í stjórn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×