Viðskipti innlent

Danske Bank: Forsendur fyrir 25% gengisstyrkingu krónunnar

Lars Christensen forstöðumaður greiningar Danske Bank segir að efnahagur Íslands sé á batavegi eftir bankahrunið haustið 2008. Greiningin telur að forsendur séu fyrir 25% styrkingu á gengi krónunnar.

Danske Bank telur að landsframleiðsla Íslands aukist um 3 til 4% árlega á næstu tveimur til þremur árum. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Danske Bank sem Christensen er að kynna á fundi hjá VÍB þessa stundina.

Christensen segir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Icesave auki óvissu en ólíklegt er að hún muni tefja endurreisnina. Verðbólga heldur hinsvegar áfram að lækka og verður undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, 2,5%, á næstu þremur árum.

Þá kom fram í máli Christensen að forsendur séu til staðar um að íslenska krónan mun styrkjast um 25% á næstu þremur árum. Einkaneysla eykst um 3% á árinu en hægar á næstu árum en atvinnuleysi verði hinsvegar áfram í kringum 10%.

Þetta er í fyrsta sinn í fjögur ár sem Danske Bank vinnur greiningu á Íslensku efnahagslífi. Í greiningunni kemur meðal annars fram að það versta sé nú yfirstaðið í íslensku efnahagslífi. Efnahagur landsins sé á batavegi.

Helstu ástæður fyrir batnandi efnahag eru m.a. jákvæður vöruskiptajöfnuður, lækkun á fasteignaverði, minni verðbólga og vanmat á íslensku krónunni. Danske Bank gefur sér þá tæknilegu forsendu að íslenska krónan muni styrkjast um allt að 25% á næstu þremur árum. Vanmat á íslensku krónunni ætti að gera afléttingu gjaldeyrishafta auðveldari en óttast er.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Icesave málinu skapar meiri óvissu og gæti haft neikvæð áhrif á fjármögnun Íslands og lánshæfismat. Aftur á móti gerir Danske Bank ekki ráð fyrir niðurstaðan hægi á efnahagsbatanum, s.s. vexti í landsframleiðslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×