Viðskipti innlent

Óvissan litar efnahagsmálin eftir Icesave kosningu

Greining Arion banka veltir fyrir sér þróun efnahagsmála í kjölfar þess að Icesave lögunum var hafnað um helgina. Það er óvissan sem einkennir efnahagsmálin umfram annað að mati greiningarinnar. Óvissan er m.a. um getu Seðlabankans til að mæta því að erlendir lánsfjármarkaðir lokist.

Greiningin fjallar um málið í Markaðspunktum sínum. Þar segir að töluverð óvissa er um frekari lán frá Norðulandaþjóðum/Alþjóðagjaldeyrissjóðnum  og aðkomu ríkisins á erlenda fjármagnsmarkaði í kjölfar synjunnar á Icesave lögunum. Vaknar sú spurning hvort ríkið geti fjármagnað gjalddaga næstu ára án utanaðkomandi aðstoðar? Ef ekki, hversu mikinn gjaldeyri þyrfti Seðlabankinn að útvega sér á markaði og eru slík áform raunhæf?

Á pappírunum ætti svigrúm Seðlabankans til gjaldeyriskaupa að vera ríflegt á næstu árum. Í ritinu „Hvað skuldar þjóðin“ kemur fram að undirliggjandi viðskiptaafgangur, vöru- og þjónustuafgangur mínus nettó vaxta- og arðgreiðslur úr landi, þegar búið er að taka Actavis og áhrif föllnu bankanna í burtu, verði 12,3% árið 2011, 12% á næsta ári og 9,8% árið 2013.

Uppsafnaður viðskiptaafgangur fram til ársins 2013 ætti því að nema um 540 milljörðum króna. Þessi spá er m.a. lögð til grundvallar sem mælikvarði á gjaldeyrissöfnun þjóðarinnar næstu árin í skýrslu um afnám gjaldeyrishafta.

Ef gengið er út frá því að þessi gjaldeyrir skili sér til landsins virðist svigrúm Seðlabankans vera umtalsvert til forðasöfnunar, þó að því gefnu að viðskiptaafgangurinn fari ekki nema að hluta til út um fjármagnsjöfnuð  það er afborganir af erlendum lánum. Þessi gjaldeyrir er þó langt frá því að vera fastur í hendi enda um áætlanir að ræða.

Greiningin segir að mikilvægt sé að hafa í huga að gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur aldrei verið stærri eða um 766 milljarðar króna. Hinsvegar má ekki gleyma að hann er allur tekinn að láni og ríflega það. Reyndar er gjaldeyrisstaðan þ.e. eignir mínus skuldir í erlendri mynt neikvæð um 30 milljarða króna.

„Ef við skoðum betur samsetningu forðans kemur í ljós að einungis hluti hans er aðgengilegur þar sem um 300 milljarðar eru innlán skilanefnda og innlendra bankastofnanna í Seðlabankanum, fé sem verður að stærstu leyti greitt út til erlendra kröfuhafa mjög fljótlega,“ segir í Markaðspunktunum.

Það sem eftir stendur er því „tiltækur“ forði upp á hann tæplega 470 milljarðar króna. Af því gefnu að gengið verði á forðann til að greiða niður gjalddaga þessa árs þá fellur tiltækur forði niður í 250 milljarða króna fyrir árslok. Ef hið opinbera hefði lítinn sem engan aðgang að erlendu fjármagni myndi gjaldeyrisforðinn tæmast á um 3 árum. Því skiptir sköpum að spá Seðlabankans um viðskiptaafgang gangi upp.

Gangi spá um viðskiptajöfnuð eftir ætti Seðlabankinn fræðilega að geta safnað fyrir gjalddögum hins opinbera og orkufyrirtækja á næstu árum, án þess að ganga á gjaldeyrisforðann eða stefna gengi krónunnar í hættu.

„Stóra spurningin í dag er því hvernig aðgangur að erlendum lánsfjármörkuðum muni þróast fyrir íslenska ríkið. Verði hann lokaður eða kjörin slæm er ljóst að svigrúm til að bíða eftir miklu gjaldeyrisinnflæði fer minnkandi hjá Seðlabankanum. Fljótlega á seinni helmingi þessa árs eða upphafi þess næsta gæti því Seðlabankinn þurft að gera sig breiðari á gjaldeyrismarkaði í því skyni að byggja upp óskuldsettan varasjóð til framtíðar,“ segir í Markaðspunktunum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×