Viðskipti innlent

Útgjöld til heilbrigðismála hafa vaxið verulega

Heildarútgjöld til heilbrigðismála hafa vaxið verulega síðasta aldarfjórðung eða úr ríflega 6,3% af landsframleiðslu í upphafi níunda áratugarins í ríflega 9,3% af landsframleiðslu á síðasta ári. Það samsvarar 143,5 milljörðum króna á verðlagi þess árs.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar en út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um heilbrigðisútgjöld á Íslandi.  Gefið er talnalegt yfirlit um helstu þætti heilbrigðisútgjalda síðustu árin.

Af heildarútgjöldum til heilbrigðismála greiðir hið opinbera 115,6 milljarða króna og einkaaðilar 27,9 milljarða. Á þremur áratugum hafa útgjöld hins opinbera til þessa málaflokks aukist úr 5,5% af landsframleiðslu í 7,5%. Á sama tíma hafa útgjöld heimilanna til heilbrigðismála ríflega tvöfaldast, úr 0,8% af landsframleiðslu í 1,8%.

Hlutur heimilanna hefur aukist verulega frá 1980 eða úr 12,8% af heildarútgjöldum í 19,5% árið 2010. Hámarki náði hlutur þeirra árið 1998 er hann nam 19,6% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála.

Til þess að meta vöxt heilbrigðisútgjalda að raungildi frá 1980 er nærtækast að staðvirða heilbrigðisútgjöld hins opinbera með verðvísitölu samneyslu og útgjöld einkaaðila með verðvísitölu heilbrigðisútgjalda einkaneyslunnar.

Í byrjun níunda áratugarins voru heilbrigðisútgjöld um 52 milljarðar króna á verðlagi 2010 en ríflega 143 milljarðar árið 2010. Heilbrigðisþjónustan hefur því nærri þrefaldast að magni (um 176% vöxtur) á þessu tímabili.

Heilbrigðisútgjöld á mann voru hins vegar um 451 þúsund krónur árið 2010 en 226,5 þúsund krónur í byrjun níunda áratugarins á verðlagi 2010 og hafa því nærri tvöfaldast (99,3% vöxtur) síðustu þrjá áratugi. Á árunum 2002-2009 stóðu þau nánast í stað og voru um 470-485 þúsund krónur á mann á sama verðlagi. Árið 2010 lækkuðu þau í 451 þúsund krónur á mann, einnig á sama verðlagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×