Viðskipti innlent

ASÍ hafnar 100 þúsund krónum til launþega

„Í dag varð ljóst að ekki tækist að gera kjarasamning til langs tíma á almennum vinnumarkaði. SA buðu því ASÍ að gera kjarasamning til skemmri tíma sem fylgdi 50 þúsund króna eingreiðsla til launþega í byrjun maí með möguleika á þremur 16.700 króna greiðslum til viðbótar í lok júní, júlí og ágúst, samtals  50 þúsund kr.“

Þetta segir í færslu á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins sem sett var á vefinn um miðnættið í gærkvöldi. Þar segir einnig að SA lögðu fram tillögu til umræðu um sameiginlegan rökstuðning fyrir skammtímasamningi og buðu jafnframt að ASÍ legðu fram eigin tillögu ef ekki væri falllist á tillögu SA. Því var hafnað og hurfu fulltrúar ASÍ af vettvangi úr Karphúsinu rétt fyrir miðnætti.

„Samningsaðilar hafa undanfarna mánuði stefnt að gerð þriggja ára samnings sem byggði á tilteknum efnahagslegum markmiðum um aukinn hagvöxt, fjölgun starfa, minna atvinnuleysi, verulega auknum fjárfestingum í atvinnulífinu, m.a. í orku- og iðnaðarverkefnum og innviðum samfélagsins.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt á það áherslu að atvinnuleiðin verði farin út úr kreppunni og starfsumhverfi fyrirtækja verði bætt verulega svo fyrirtæki stór og smá í öllum greinum geti farið að ráða fólk á ný og auka umsvif sín.

Samtök atvinnulífsins eru tilbúin til að leggja mikið af mörkum til að gera kjarasamninga til lengri tíma. Að mati aðila vinnumarkaðarins er aðkoma ríkisstjórnarinnar að samningunum nauðsynleg  en því miður hafa ekki enn reynst forsendur fyrir langtímasamningi þar sem ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram trúverðugar áætlanir um að auka hagvöxt á næstu árum,“ segir á vefsíðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×