Viðskipti innlent

Steingrímur segir lækkun lánshæfismats óréttlætanlega

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Ekki er hægt að réttlæta lækkun lánshæfismats nú þegar efnahagslífið á Íslandi er að taka við sér. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra við fréttastofu Reuters í dag.

Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's tilkynnti á miðvikudaginn að lánshæfismat Íslands yrði mögulega lækkað í ruslflokk vegna þess að Icesave málið er óleyst. „Ég held að lækkun lánshæfismats yrði mjög óheppileg og óréttlætanleg," sagði Steingrímur. „Ef þú lítur á styrkleika í íslenska hagkerfinu þá gengur okkur nokkuð vel. Við erum að ná hagvexti aftur og við erum komin í gegnum mestu erfiðleikana. Við erum á uppleið aftur og lækkun lánshæfismats yrði mjög skrýtið," bætti Steingrímur við.

Steingrímur sagði að Holland og Bretland fengu greitt út úr þrotabúi Landsbankans þó að Icesave samningurinn hefði ekki verið samþykktur. Hollendingar og Bretar fengu peningana hins vegar ekki frá íslenskum skattgreiðendum.

Steingrímur sagði að umtalsverð fjárhæð, að minnsta kosti þriðjungur upphæðarinnar, verði greiddur fyrir jól. Afgangurinn verði greiddur á allt að þremur árum. Þá sé hugsanlegt að þrotabúið muni standa undir greiðslu á öllum Icesave innlánunum. Steingrímur segir í samtali við Reuters að hann hafi engar áhyggjur af fjármögnun ríkissjóðs. Ríkissjóður sé fjármagnaður að fullu og geti staðið skil á greiðslum allt til ársins 2015.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×