Viðskipti innlent

110 prósent leiðin verðlaunar vanskil

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar
Hundrað og tíu prósenta leið Íbúðalánasjóðs verðlaunar vanskil og nýtist best þeim sem neituðu að borga af lánum sínum. Þetta segir þingmaður Samfylkingarinnar sem kallar eftir því að rannsókn á Íbúðalánsjóði verði lokið sem fyrst.

Hátt í tvö þúsund manns hafa sótt um hundrað og tíu prósenta leið Íbúðalánsjóðs og býst sjóðurinn við allt að níu þúsund umsóknum um leiðréttingu skulda. Í fréttum okkar á fimmtudag sögðum við frá því að einstaklingur sem tók 19 milljón króna lán fyrir fasteign árið 2007 sem kostaði þá 23,8 milljónir króna fær aðeins 500 þúsund krónur afskrifaðar þrátt fyrir að lánið hafi hækkað um 7,5 milljónir.

Ef þessi sami einstaklingur hefði hins vegar hætt að greiða af lánum sínum strax eftir hrun fengi hann mun meira afskrifað, auk þess sem peningar sem annars hefðu farið í vexti og afborganir hefðu nýst honum á þeim tíma.

„Gallinn við 110% leiðina er að hún verðlaunar vanskil og gagnast kannski þeim mest sem gengu lengst í skuldsetningu," segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.

„Þetta eru vond skilaboð inn í framtíðina. Að ráðdeildarsemi borgi sig ekki, heldur séu það þeir sem fóru lengst í skuldsetningu og hafa ekki greitt af fái kannski mesta stuðninginn. En, það er úr litlu að spila og því miður hefur mjög illa verið staðið að lánamálum í íbúðarlánasjóði. Við höfum tapað tugum milljarða í honum og ég legg áherslu á að sú rannsókn sem þar á að fara fram verði lokið og almenningi kynntar ástæður þess af hverju svo illa sé komið,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×