Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðirnir fjárfesta hugsanlega í HS-Orku

Heimir Már Pétursson skrifar
HS-Orka.
HS-Orka.
Ef áreiðanleikakönnun lífeyrissjóðanna á HS-Orku leiðir í ljós að vænlegt sé að fjárfesta í fyrirtækinu, munu sjóðirnir kaupa hlutabréf í fyrirtækinu fyrir tæpa þrettán milljarða króna. Niðurstaða ætti að liggja fyrir í næsta mánuði.

Viðræðunefnd fjórtán lífeyrissjóða hefur náð samkomulagi við Magma Energy um útlínur mögulegra viðskipta með bréf í HS Orku og helstu skilmála. Nefndin hefur ákveðið að láta fara fram áreiðanleikakönnun á fyrirtækinu, þar sem skoðaðir verða lagalegir þættir, jarðfræðilegir og fjárhagslegir. Verði að fjárfestingu lífeyrissjóðanna er gert ráð fyrir að þeirri greiði rétt rúma átta milljarða fyrir fjórðungs hlut, sem er sama verð og Magma greiddi á sínum tíma fyrir bréfin.

Þá er lífeyrissjóðunum einnig boðið að auka væntanlegan hlut sinn í fyrirtækinu upp í 33,4 prósent og greiða þá til viðbótar 4,7 milljarða króna. Samanlagt gætu lífeyrissjóðirnir fjórtán því fjárfest fyrir um 12,7 milljarða króna í HS-Orku.

Í yfirlýsingu frá sjóðunum segir að aðilar séu sammála um að lífeyrissjóðunum verði tryggð rík minnihlutavernd með setu fulltrúa þeirra í stjórn fyrirtækisins og formlegri aðkomu að öllum meiriháttar ákvörðunum félagsins. Stefnt er að því  að niðurstaða sjóðanna varðandi kaupin liggi fyrir í næsta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×