Viðskipti innlent

Fortíð Björgólfsfeðga rifjuð upp í Rússlandi

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson.
Rússneska blaðið Moscow News gerir fortíð Björgólfsfeðga í rússneskum viðskiptaheimi að umtalsefni í blaðinu í dag vegna neitunar íslensku þjóðarinnar á Icesave. Talskona Björgólfs Thors Björgólfssonar segir skrif blaðsins vera slúður og dylgjur.

Í leiðara Moscow News segir að fjárhagskreppur séu eins og bráðnandi snjór. Að þeim loknum birtist alls skyns ósómi sem áður hafi verið falinn augu almennings. Blaðið tekur sem dæmi Björgólfsfeðga, sem eigi sinn þátt í íslenska bankahruninu.

Hann gangi tiltölulega óskaddaður frá hruninu meðan landið sé í rúst. Leiðarahöfundur segir það þó áhugaverðara hvernig Björgólfur Thor komst í álnir til að byrja með. Hann rifjar upp viðskipti þeirra á í Sánkti Pétursborg á níunda áratugnum - á þeim tíma hafi áfengismarkaðurinn verið samofinn mafíu og spillingu.

En það hafi ekki stöðvað Björgólf í að eignast sínar milljónir þegar hann seldi Heineken ölgerð sína. Sú sala hafi gert Björgólf Thor að milljarðamæringi og skömmu síðar hafi hann verið kominn með sinn eigin banka í hendurnar. Framhaldið þekki allir.

Ragnhildur Sverrisdóttir, talskona Björgólfs Thors, segir í yfirlýsingu til Fréttastofu að þarna sé um að ræða dylgjur um meint tengsl við mafíustarfsemi og þær fullyrðingar verði ekkert sannari við það eitt að þær séu endurteknar. Aldrei hafi komið neitt fram um tengsl Björgólfsfeðga við glæpastarfsami í Pétursborg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×