Viðskipti innlent

Nýtt skipulag Nýherja tekur gildi í dag

Nýtt skipulag hjá Nýherja og dótturfélögum á Íslandi tekur gildi í dag. Megin breytingarnar felast í sameiningu félaga í tengdri starfsemi og uppbyggingu stærri eininga sem veita þjónustu á sviði upplýsingatækni.

Í tilkynningu segir að markmið þeirra breytinga, sem nú verða innleiddar hjá Nýherjasamstæðunni er að efla samkeppnisstyrk og sérstöðu félagsins á innlendum markaði og styrkja þjónustuframboð til viðskiptavina þess.

Skipulagsbreytingarnar felast meðal annars í eftirfarandi:

Rekstrar- og hýsingarfélagið Skyggnir ehf. og fyrirtækið Sense ehf., sem sérhæfir sig í hljóð- og myndlausnum auk Viðju ehf. sameinast móðurfélaginu Nýherja hf. Skyggnir og Sense verða áfram vörumerki innan Nýherja hf. Eftir sameininguna verða starfsmenn Nýherja hf. um 270.

Applicon ehf. og Vigor ehf., sem sérhæfa sig í lausnum á sviði viðskiptahugbúnaðar sameinast undir nafni Applicon ehf. „Vigor lausnir" verða þróaðar áfram og hluti af lausnaframboði Applicon ehf. Starfsmenn Applicon ehf. verða um 55 eftir sameininguna.

TM Software ehf., sem starfar að hugbúnaðarþróun og EMR heilbrigðislausnir ehf., sem á og þróar sjúkraskrárkerfi og lausnir á heilbrigðissviði, sameinast undir merkjum TM Software ehf. Sjúkraskrárkerfi EMR, svo sem Saga, Hekla og fleiri kerfi verða hluti af lausnaframboði TM Software ehf. Starfsmenn TM Software ehf. verða um 65 eftir sameininguna.

Heildarfjöldi starfsmanna Nýherjasamstæðunnar hérlendis og erlendis eru um 540.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×