Viðskipti innlent

Eignir Almenna jukust um 7,3 milljarða í fyrra

Heildareignir Almenna lífeyrissjóðsins voru 98,7 milljarðar kr. í árslok 2010 og stækkaði sjóður­inn um 7,3 milljarða kr. Sjóðfélagar í árslok voru 32.435 og fjölgaði um 735 á árinu.

Þetta kemur fram á vefsíðu sjóðsins þar sem birt er yfirlit um reksturinn síðasta ár. Iðgjöld til sjóðsins voru samtals 7,4 milljarðar kr. og lækkuðu um 3% frá fyrra ári. Iðgjöldin skiptust í lág­marksiðgjöld 4,6 milljarðar kr. og viðbótariðgjöld 2,8 milljarðar kr.

Ríkissöfn Almenna lífeyris­sjóðsins skiluðu bestu ávöxtun­inni árið 2010. Ríkissafn langt hækkaði um 11,5% og Ríkis­safn stutt um 9,5%. Innlánasafnið og Ævisafn IV hækkuðu um 6,4% og 5,8%. Innlánsvextir og lækkun á ávöxtunarkröfu ríkistryggðra skulda­bréfa skýra góða ávöxtun safnanna.

Blönduð verðbréfasöfn liðu fyrir að erlend verðbréf hækk­uðu lítið vegna styrkingar krón­unnar. Ævisafn I hækkaði um 4,6%, Ævisafn II um 4,7%, Ævisafn III um 3,8% og samtrygg­ingarsjóður um 4,1%.

Að teknu tilliti til 2,6% verðbólgu var raunávöxtun ávöxtunarleiða sem hér segir: Ríkisafn langt 8,6%, Ríkissafn stutt 6,7%, Innlánasafn 3,7%, Ævisafn I 2,0%, Ævisafn II 2,0%, Ævisafn III 1,2%, Ævisafn IV 3,1% og samtryggingarsjóður 1,5%.

Óvissa er um uppgjör gjaldmiðlavarnarsamninga sem gerðir voru árið 2008. Varúðar er gætt við mat á samningunum og hefur Almenni lífeyrissjóðurinn gjaldfært þá miðað við gengi á gjalddaga ásamt dráttarvöxtum.

Tryggingafræðileg staða samtryggingarsjóðs batnaði milli ára. Í lok ársins voru áunnar skuldbindingar 12,2% umfram eignir og heildarskuld­bind­ingar 5,4% umfram heildareignir (nú­verandi eignir að við­bættu núvirði fram­tíðariðgjalda).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×