Viðskipti innlent

Lyfjakostnaður lækkaði um 1150 milljónir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lyf og heilsa. Mynd/ PB.
Lyf og heilsa. Mynd/ PB.
Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna lyfja lækkaði um 1150 milljónir króna, eða um 10,7%, í fyrra þrátt fyrir að notkun mæld í dagskömmtum hafi aukist um 5,9%. Þetta kemur fram í frétt á vef Sjúkratrygginga.

Þar kemur fram að meginástæða lækkunarinnar hafi verið aukin notkun ódýrari lyfja í kjölfar breytinga á reglum um greiðslu­þátttöku lyfja í nokkrum lyfjaflokkum.

Sem dæmi hefur lyfjakostnaður vegna beinþéttnilyfja lækkað um 120 milljónir króna og vegna ákveðinna blóðþrýstingslyfja um 410 milljónir króna á einu ári. Til viðbótar notkun ódýrari lyfja en áður átti hagstæð gengis- og verðlagsþróun þátt í lækkuninni og er áætlað að um 224 milljónir króna megi rekja til hennar.

Af öðrum þáttum sem höfðu áhrif á kostnaðinn árið 2010 má nefna hækkun smásöluálagningar, hækkun virðisaukaskatts úr 24,5% í 25,5% og hækkun á kostnaðarhlutdeild sjúkratryggðra.

Lyfjakostnaður sjúkratrygginga var 10.743 milljónir króna árið 2009 en um 9.594 milljónir króna í fyrra. Þá eru sjúkrahúslyf undan­skilin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×