Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir tilbúnir í viðræður við OR um virkjanakaup

Landsamband lífeyrissjóða er tilbúið í viðræður við Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um kaup á Hverahlíðarvirkjun. Þetta var rætt á fundi stjórnar landssambandsins í morgun en þar var einnig til umræðu staðan í viðræðum lífeyrissjóðanna við Magma Energy um kaup á 25% hlut í HS Orku.

Fundurinn í morgun samþykkti ályktun sem send var til allra lífeyrissjóða landsins nú í hádeginu. Í ályktunni segir að á fundinum hafi komið fram áhugi á að kanna hugsanlega aðkomu lífeyrissjóða að eignarhaldi og/eða fjármögnun í fyrirhugaðri Hverahlíðarvirkjun.

„Fundurinn samþykkti að koma þessum áhuga lífeyrissjóðanna á framfæri við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnendur Norðuráls sem væntanlegs kaupenda raforkunnar úr fyrirhugaðri Hverahlíðarvirkjun,“ segir í ályktuninni.  „Fái málið frekari framgang mun verða myndaðar viðræðuhópur á vettvangi lífeyrissjóðanna.“

Arnar Sigurmundsson formaður Landsamband lífeyrissjóða segir að auk þessa hafi verið rætt við stöðuna í viðræðum lífeyrissjóðanna um hugsanleg kaup á 25% í HS Orku. Arnar segir að þær viðræður séu í eðlilegum farvegi sem stendur. Mögulega muni lífeyrissjóðirnir geta eignast stærri hlut í HS Orku í gegnum nýtt hlutafjárútboð í framtíðinni.

Hvað varðar hugsanlegt fyrirkomulag á virkjanakaupum lífeyrissjóðanna segir Arnar að málið sé of skammt á veg komið til að fjalla um slíkt. Ýmsir möguleikar séu til staðar eins og að stofna sérstakt félag eða láta Framtakssjóð Íslands sjá um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×