Viðskipti innlent

Glacier skapar verðmæti með íslenskri sérþekkingu

Starfsleyfið sem Glacier Securities, dótturfyrirtæki Íslandsbanka í Bandaríkjunum, fékk í vikunni hefur það í för með sér að það má starfrækja fjármálafyrirtæki í Bandaríkjunum á takmörkuðu sviði. Glacier mun einkum starfa sem ráðgjafi við kaup og sölu á fyrirtækjum á sviði jarðvarma og sjávarútvegs í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka. Þar segir að ennfremur mun Glacier vinna með íslenskum fyrirtækjum sem starfa á þessum vettvangi í viðleitni þeirra til að afla sér verkefna á Bandaríkjamarkaði.

Að baki er átta mánaða strangt umsóknarferli hjá þarlendum yfirvöldum. Leyfið felur í sér að starfsemi félagsins er undir ströngu eftirliti bandarískra eftirlitsaðila. Sjö starfsmenn starfa hjá Glacier, tveir eru staðsettir hér á landi og fimm í New York. Þeir hafa allir tilskilin leyfi frá bandarískum eftirlitsaðilum til að sinna störfum fyrir félagið. Gert er ráð fyrir að ný skrifstofa félagsins opni í New York í næsta mánuði.

Glacier byggir á þeirri sérþekkingu sem Íslandsbanki, og forverar hans, hafa þróað á undanförnum áratugum á sviði jarðvarma og sjávarútvegs. Á undanförnum mánuðum hefur Íslandsbanki orðið áþreifanlega var við eftirspurn eftir þessari þekkingu á meðal fyrirtækja á Bandaríkjamarkaði. Með leyfisveitingunni hafa fyrstu skrefin verið stigin til að svara þessari eftirspurn.

„Sú sérþekking sem við búum yfir á sviði jarðvarma og sjávarútvegs er eftirsótt og hefur Íslandsbanki fulla trú á að hana megi nýta til tekjusköpunar í auknum mæli. Íslandbanki ætlar sér hlutverk á bandarískum fyrirtækjamarkaði á sviði jarðvarma og sjávarútvegs, fyrst um sinn með ráðgjöf. Ásókn er í íslenska sérþekkingu á þessum sviðum og í því felast mikil tækifæri,“ segir Árni Magnússon sem hefur umsjón með alþjóðaviðskiptum á Fyrirtækjasviði Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×