Skoðun

Kveðjum NATO

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar
Á árinu sem nú er gengið í garð munu 266 milljónir renna úr vösum íslenskra skattgreiðenda til hernaðarsambandsins NATO. Um leið verður heilbrigðis- og menntakerfið fyrir harkalegri niðurskurði en nokkru sinni fyrr. Þegar hernaðarsinnar verja aðild Íslands að NATO vísa þeir jafnan til þess hve landið er afskekkt og óvarið og benda á mikilvægi vestrænnar samvinnu. Slík rök hrökkva þó skammt.

Í fyrsta lagi er erfitt að sjá hvaða hernaðarógnir steðja að Íslandi. Í öðru lagi raskar NATO-aðildin hlutleysi landsins og gerir Ísland að skotmarki fyrir óvini hernaðarsambandsins. Í þriðja lagi er vart hægt að hugsa sér verri félagsskap en stríðsherra Atlantshafsbandalagsins. Raunar er NATO ein ljótasta birtingarmynd vestrænnar samvinnu. Bandaríkin, herskáasta stríðsveldi nútímans, fara með herstjórn í bandalaginu og sjá því að mestu leyti fyrir hernaðarmætti og fjármagni.

Á seinni tímum virðist NATO hafa breyst í verkfæri bandarískra stríðsmangara, eins konar vopnabúr til að leita í þegar heimsvaldahagsmunir krefjast. Aðeins er liðinn rúmur áratugur frá hinum ólöglegu loftárásum í Júgóslavíu þar sem hersveitir NATO sprengdu á fjórða hundrað opinberra bygginga í loft upp, þar á meðal leikskóla og sjúkrahús.

Nærtækara dæmi er aðstoð bandalagsins við olíuþyrst hernámsöflin í Afganistan og Írak auk dyggilegs stuðnings þess við Ísraelsher. Síðast en ekki síst hefur hernaðarsambandið ítrekað beitt sér gegn kjarnorkuafvopnun og staðið fyrir gegndarlausu hernaðarbrölti og vígvæðingu á láði og legi. Það að íslensk stjórnvöld skuli ausa milljónum í útlenska fjöldamorðingja á meðan spítalar landsins verða fyrir blóðugum niðurskurði er til háborinnar skammar.

Ég hvet ráðamenn til að hafna hernaðarhyggjunni, slíta aðildinni að NATO og stuðla að friðsælli heimi.




Skoðun

Sjá meira


×