Skoðun

Staðan á Helguvík

Björgvin G. Sigurðsson skrifar
Fyrir tæpum þremur árum fóru framkvæmdir við álver Norðuráls í Helguvík af stað. Grundvöllur framkvæmdanna var orkusölusamningar við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur. Ári síðar samþykkti Alþingi með góðum meirihluta fjárfestingarsamning vegna álversins. Þar með voru öll skilyrði fyrir framkvæmdunum uppfyllt.

Síðan þá hafa framkvæmdirnar tafist og lent í þrátefli. Sveitarfélögin seldu sinn hlut í HS Orku og misstu þar með forræðið yfir áformum þess um orkusölu. Nýir eigendur hafa ekki viljað standa að jafn mikilli orkusölu og hinir fyrri til álversins. Norðurál stefndi í kjölfarið HS Orku í gerðardóm í Svíþjóð. Nú síðast bætast við erfiðleikar OR og vangeta til að standa við sinn hlut orkuöflunarinnar.

Mikið er undir í atvinnulegu tilliti, rétt eins og það skiptir miklu máli að kísilverksmiðja Thorsil í Þorlákshöfn verði að veruleika, en þá þarf að virkja á heiðinni.

Það sem þarf að gerast á næstu vikum til að framkvæmdirnar fari af stað og nokkur þúsund störf skapist á nokkrum mánuðum með þeim afleiðingum að samdráttur í mannvirkjageiranum svo gott sem sópist í burtu og hið mikla atvinnuleysi á Suðurnesjum gangi niður er m.a.:

1. HS Orka og Norðurál nái samningum og taki málið úr gerðardómi. Það kemur í ljós í næstu viku þegar fulltrúar móðurfélaga þeirra funda í Bandaríkjunum hvort það takist en nú er til þrautar reynt.

2. Sterkir fjárfestar og/eða Landsvirkjun gangi inn í virkjanaáform OR vegna Helguvíkur og annarra nýframkvæmda. Taki samninga um túrbínukaup yfir ásamt orkusamningum við t.d. Thorsil og Norðurál.

3. Landsvirkjun tryggi orku í þriðja áfanga álversins með umframorku í kerfi sínu og þeirri orku sem til ráðstöfunar verður eftir að gerð rammaáætlunar um nýtingu og náttúruvernd lýkur á næstunni.

Þetta þarf að ganga fram til að framkvæmdir haldi áfram og nái hástigi. Ég tók málið upp við formann iðnaðarnefndar á Alþingi í vikunni og sagði hann að á næstu dögum myndi nefndin funda með þeim sem að málum standa og freista þess að ná jákvæðri niðurstöðu í það.

Mikið er undir og engin ástæða til að afskrifa orkuframkvæmdirnar þótt tafist hafi. Nú er lag að koma hlutunum á hreyfingu og framkvæmdum af stað á ný.




Skoðun

Sjá meira


×