Viðskipti innlent

Jóni Ásgeiri og félögum stefnt fljótlega

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steinunn H. Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson í slitastjórn Glitnis. Mynd/ Pjetur.
Steinunn H. Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson í slitastjórn Glitnis. Mynd/ Pjetur.
Allar líkur eru á því að mál Glitnis gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og sex viðskiptafélögum hans verði höfðað á Íslandi. Málið sem var upphaflega höfðað í New York en vísað frá dómi þar verði brotið niður í fleiri smærri mál. „Það eru allar líkur á að þetta verði gert á Íslandi og að þetta verði fleiri en eitt mál," segir Steinunn H. Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, í samtali við Vísi.

Viðskiptablaðið hefur eftir heimildarmönnum sínum í dag að fleiri einstaklingum verði stefnt hér heima en voru á meðal þeirra stefndu í New York. Því muni einhverjir nýir bætast í þann hóp. „Það er alls ekki víst að sömu aðilum verði stefnt. Það getur vel verið að það verði færri aðilum stefnt en það getur líka verið að það verði fleiri aðilum stefnt," segir Steinunn. 

Steinunn segir skammt í að stefna verði birt að nýju. Viðskiptablaðið segir að slitastjórnin unnið að undirbúningi málshöfðanna á Íslandi samhliða því að mál hennar gegn sjö einstaklingum og PwC var rekið fyrir dómstólum í New York. Það hafi verið gert til að geta brugðist við því ef málið yrði ekki tekið til efnislegrar meðferðar þar.

Málið í New York snerist um að krefja Jón Ásgeir Jóhannesson og viðskiptafélaga hans um 230 milljarða íslenskra króna fyrir að hafa rænt Glitni innanfrá. Auk Jóns Ásgeirs var þeim Ingibjörgu Pálmadóttur, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni, Þorsteini M. Jónssyni og PwC stefnt fyrir aðild að málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×